Þjóðfélagið okkar er mjög upptekið af fjármálakreppunni um þessar mundir, enda ástæða til. Margir hafa um sárt að binda, eru hræddir og vilja fá lausn mála sinna. Íslendingar krefjast úrræða og eru samt neyddir til að vera í eins konar ,,biðstöðu“ meðan óvissuástand ríkir.
Margt fólk er að ganga í gegnum erfiðleika sem tengjast ekki fjármálakreppunni, eins og sjúkdóma, skilnaði eða missi ástvina. Hælisleitendur á Íslandi tilheyra þessum hópi. Frá sl. sumri hefur verið frekar mikil umræða um málefni hælisleitenda. Þrátt fyrir hana hafa grundvallaratriði í hælismálum ekki breyst til hins betra. Hjá þeim er viðvarandi óvissuástand frá fyrsta degi á Íslandi þar til mál þeirra er ráðið til lykta, en það getur tekið mörg ár.
Þrír hælisleitendur hafa verið í hungurverkfalli frá 3. nóvember sl(Einn þeirra hætti eftir nokkra daga. Tveir eru ennþá í verkfalli á 12. dag). Þeir eru allir karlmenn frá Asíu- eða Afríkuríkjum og hafa dvalist á gistiheimili í Reykjanesbæ í tvö til fjögur ár.
Þeir segja: ,,Við vorum búnir að bíða tvö, þrjú, fjögur ár en ekkert gerðist. Við þáðum smá vasapeninga og föt frá öðru fólki og búum í gistiheimili þar sem fjölskyldan okkar er ekki. Við getum ekki lært eða unnið þó að við viljum það gjarnan. Við erum jú þakklátir fyrir aðstoð og velvilja, en samt er slíkt ekki líf sem við viljum.“
Þeir vita að íslenska þjóðfélagið er núna að glíma við mjög sérstaka erfiðleika en segja jafnframt að aðstæður heimalöndum þeirra séu slæmar þar sem mannréttindi og réttlæti eiga undir höggi að sækja og þess vegna urðu þeir að flýja þaðan. Þeir komu til Íslands til þess að lifa af, en hérna þurfa þeir áfram að glíma við annars konar erfiðleika.
Með hungraverkfallinu eru þeir að vonast til að fá almennilegt dvalarleyfi á Íslandimog vekja athygli á aðstæðum sínum. ,,Okkur langar ekki í ráðstafanir til bráðabirgða. Slíkt ferli er nú orðin óþolandi pína fyrir okkur. Við þolum tvö, þrjú ár af þessari óvissu en við getum ekki þolað þessar aðstæður áfram mörg ár til viðbótar “.
Sem prestur innflytjenda og einnig sjálfsboðaliði hjá öðrum samtökum fer ég oft í heimsókn til þeirra. Ég hef þekkt þá í langan tíma enda hafa þeir verið á gistiheimilinu nokkur ár. Það er ýmislegt sem við getum rætt sem vinir. Ég ætla ekki að mæla með því að þeir haldi áfram í hungraverkfallinu, en mér finnst hins vegar þeir hafa margt til síns máls, sem nauðsynlegt er að skoða. Það er engin ástæða til þess að fólk þoli óvissu og stöðnun í lífi sínu í mörg ár, þegar það kemur og leitar hælis á Íslandi. Okkur ber að hjálpa til við að gera aðstæður sem mannúðlegastar fyrir þessa einstaklinga. Hvað stendur í vegi okkar?
Í tilvikum þessara manna hefur engin veruleg ástæða til brottvísunar fundist á seinustu árum. Er þá ekki réttara að veita þeim dvalarleyfi með skyldum og ábyrgð sem í því felst að vera löglegur íbúi í landinu, fremur en að koma fram við þá eins og stofufanga?
(Prestur innflytjenda, 17. nóvember 2008 Mbl.)