Mannréttindaskrifstofa Íslands (MRSÍ) stendur við dauðans dyr. Það er afar sorglegt að frétta að utanríkisráðuneytið hafi ákveðið að hætta stuðningi við MRSÍ. Síðustu ár hafa utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið stutt starfsemi Mannréttindaskrifstofunnar með því að úthluta 4 milljónum króna hvort um sig, samtals 8 milljónum árlega. Í fjárlögum 2005 var fjárliðum sem áður voru merktir Mannréttindaskrifstofunni breytt í mannréttindasjóð sem skrifstofan þurfti að sækja um í sérstaklega. Dómsmálaráðuneytið lækkaði þannig framlag sitt í 2,2 milljónir og í ljós kemur eftir margra mánaða bið að utanríkisráðuneytið ætlar ekki að leggja neitt fjármagn til starfseminnar. Í eðli sínu er MRSÍ ekki stofnun sem aflar sér peninga sjálf og 70 % fyrirvaralaus skerðing styrks frá ríkinu þýðir að stafsemi MRSÍ leggist niður að óbreyttu.
MRSÍ er eina sjálfstæða stofnunin hérlendis sem starfar að almennum mannréttindamálum faglega. Sem prestur innflytjenda er ég búinn að vera í miklu samstarfi við MRSÍ undanfarin ár og ég er óskaplega ánægður með starfsemi skrifstofunnar. Mannréttindabarátta er oftast barátta valdalausra manna gagnvart sterkara valdi í samfélaginu og að mínu mati er MRSÍ ötull málsvari hinna valdaminni. Orðrómur segir að skerðing styrks ríkisins sé vegna þess að yfirvöldum falli ekki í geð málefnaleg gagnrýni MRSÍ. Ég vil ekki trúa slíku, en svo lengi sem viðkomandi ráðuneyti sýnir ekki fram á aðra áþreifanlega, málefnalega ástæðu skerðingarinnar neyðist maður til að telja orðróminn sannan.
MRSÍ á stuðla að vernd mannréttinda og veita stjórnvöldum aðhald án tillits til hvaða stjórnmálaflokkar eru við völd hverju sinni. Málefnaleg umræða og gagnrýni er grunnur lýðræðiskerfisins þar sem lýðræðið viðurkennir tilvist ólíkra skoðana og tryggir rétt til andsvars. Stjórnvöld ættu að sjá hag sinn í því styðja óháða eftirlitsstofnun á sviði mannréttinda og fóstra þannig málefnalega umræðu um mannréttindi í lýðræðisþjóðfélagi. Bráðnauðsynlegt er að MRSÍ haldi áfram starfsemi sinni sem miðar að því að tryggja mannréttindavernd til handa öllum Íslendingum. Ég óska þess innilega stjórnvöld endurskoði málið og styrki Mannréttindaskrifstofu Íslands sem fyrr svo við þurfum ekki að upplifa þá hneisu að þessi merkisstofnun neyðist til að loka.
(prestur innflytjenda, 4. maí 2005 Mbl.)