Þýðingarmikil verðlaun sr. Miyako

Sr. Miyako Þórðarson, prestur heyrnarlausra, fékk viðurkenningu Alþjóðahúss ,,Vel að verki stanðið “ ársins 2006 fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi. Tilgangur viðurkenningarinnar er að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda og fjölmenningar.  Sr. Miyako hefur helgað er að helga sig þjónustu heyrnarlausra innan kirkjunnar undanfarin tuttugu og sex ár og er brautryðjandi að þjónustu kirkjunnar við fólk með fötlun.  Auk þess hefur framlag hennar til aukinna samskipta á milli Íslands og Japans verið mikið. Mér finnst hún vel að viðurkenningu þessari komin og samgleðst henni sem starfsfélagi, samlandi og vinur.

Ég tel viðurkenningu sr. Miyako táknræna, ekki aðeins fyrir hana persónulega heldur fyrir samfélagið í heild, þ.e. þær ástæður sem lágu til grundvallar á valinu.

Í fyrsta lagi veitir sr. Miyako einkum íslensku, heyrnarlausu fólki þjónustu. Ástæða þess að hún fékk viðurkenninguna er því ekki sú að hún hafi þjónað innflytjendum hérlendis, heldur sú að Miyako, sem er af erlendum uppruna, hefur unnið mikilvægt brautryðjendastarf fyrir íslenskt  samfélag. Í þessu tilfelli er innflytjandi ekki að þiggja þjónustu heldur að veita þjónustu. Það er mikilvægt að hafa dæmi eins og þetta í huga nú þegar umræðan um innflytjendur stendur sem hæst á Íslandi og sumir reyna að leiða hana í neikvæðar áttir.

Í öðru lagi sýnist mér að samskipti ófatlaðra við fólk með fötlun í samfélaginu gætu verið meiri. Hvað varðaði heyrnarlaust fólk innan kirkjunnar þá stofnaði sr. Miyako og heldur enn utan um söfnuð heyrnarlausra sem er mikilvægur vettvangur fyrir þá. Ég held að í dag gætu kirkjusöfnuðir almennt haft betri samskipti við heyrnarlaust fólk og sama má segja um samskipti við fólk sem glímir við aðra fötlun. Það á auðvitað líka við um samfélagið almennt.

Ég veit að það er margt gott fólk sem vinnur að meiri og betri samskiptum og virkri þátttöku bæði fólks með fötlun og innflytjenda en ég óska þess virkilega að nú þegar væri slíkt sjálfsagt mál og venjulegt fyrir alla í samfélaginu.

(Prestur innflytjenda, 6. janúar 2007 Mbl.)

css.php