Þjóðkirkjan og samkynhneigð

Á árunum 1996 til 1998 var mikið rætt um málefni samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnar. Sérskipuð nefnd skilaði stórri skýrslu um málið til kirkjuþings árið 1996, en þar komu fram jákvæð viðhorf til samkynhneigðar. Prestastefna ársins 1997 samþykkti að hvetja “til áframhaldandi guðfræðivinnu í málinu” og jafnframt að “helgisiðanefnd kynni sér þá vinnu sem fram fer í systurkirkjum okkar varðandi leiðbeiningar um fyrirbæn og blessun á staðfestri samvist samkynhneigðra”. Síðar kom í ljós að engin fordæmi fyrir slíkri athöfn voru til staðar í systurkirkjum á Norðurlöndunum. Blessun til samkynhneigðra var þá til bráðabirgða hérlendis falin í sálgæsluþjónustu presta. Síðan þá hefur þjóðkirkjan í raun þagað um málefni samkynhneigðra, rétt eins og endanlega væri búið að leysa málið. Sem einn af prestum þjóðkirkjunnar langar mig að hugleiða næstu skref.

1. Þögn þjóðkirkjunnar…hvers vegna?

Hverjar eru ástæðurnar fyrir þögn kirkjunnar? Fyrst og fremst er ástæðan sá ótti stjórnar kirkjunnar að skýr stefna til samkynhneigðar muni valda klofningi innan kirkjunnar. “Prestastefna Íslands 1997 álítur mikilvægt að eining kirkjunnar sé virt og varðveitt”. Eins og sést í dæmi um nývígðan samkynhneigðan biskup Breskabiskupakirkjunnar í New Hampshire í Bandaríkjunum og mótmælum gegn hans vígslu, virðist þessi ótti vera raunsær. Persónulega tel ég ekki að slík hætta á klofningi sé til staðar í þjóðkirkju Íslands, því að umhverfi þjóðkirkjunnar er allt öðruvísi. En hvað sem því líður getum við einfaldlega ekki haldið áfram að ganga fram hjá tilveru tiltekins minnihlutahóps í nafni einingu kirkjunnar. Afskiptaleysi má alls ekki vera langtímastefna kirkjunnar. Við verðum að stíga næsta skref.

Nátengd þessum ótta um klofning innan kirkjunnar er sú staðreynd að innan þjóðkirkjunnar er töluverður munur á skilningi manna á Biblíunni. “Við verðum líka að horfast í augu við að ágreiningur er um túlkun heilagrar ritningar hvað varðar samkynhneigð” (“Hirðisbréf” Karl Sigurbjörnsson biskup 2001). Það er staðreynd að margir mikils metnir guðfræðingar í kristinni siðfræði og Biblíufræði halda uppi guðfræðilegum rökum fyrir jákvæðri sýn á samkynhneigð. Aðrir þrjóskast hins vegar við og vitna í tiltekin orð Biblíunnar til að fordæma samkynhneigð án þess að sýna fram á skynsamlega röksemd. Aðalmálið er e.t.v. ekki ágreiningurinn sjálfur heldur skortur á samræðu um þessi mál innan kirkjunnar. Þar hefur skort frumkvæði til að kynna betur skoðun nútímaguðfræðinga. Þetta verður að teljast til nauðsynlegs verkefnis á næstunni.

Hluti vandamálsins hjá okkur í kirkjunni er einnig að enginn vettvangur er til staðar í kirkjunni þar sem prestar, djáknar og áhugaleikmenn vinna stöðugt saman að málinu. Þrátt fyrir þá staðreynd t.d. að margir prestar eru með jákvæð viðhorf til samkynhneigðar er samstarf þeirra innan kirkjunnar ótrúlega lítið. Kirkjan þarf að búa til opinn vettvang um þetta málefni.

2. Næstu skref kirkjunnar

Þjóðkirkjan er þegar með góða skýrslu frá 1996 og ábendingar um næstu skref. Málið er einmitt hvort hún haldi áfram á þessari braut eða ekki. Kirkjan á að einbeita sér að því að sýna áþreifanlega stefnu frekar en að endurtaka sama leikinn kringum það “hvað Biblían segir”. Brátt fara fram umræður á milli FAS (Félags foreldra og aðstandenda samkynhneigðra) og Prestafélags Íslands og ég fagna því sérstaklega. Vonandi verður það tækifæri nýtt til fullnustu.

Í þessu samhengi vil ég ítreka eitt atriði. Við í kirkjunni eigum ekki að hugsa um málefni samkynhneigðra aðeins á einn afmarkaðan hátt eins og t.d. hvort kirkjan blessi samkynhneigð eða ekki. Afstaða kirkjunnar til samkynhneigðar er ekki eitthvert “fræðilegt viðfangsefni” heldur snýst um lifandi fólk og kristin safnaðarbörn, og hver og einasta manneskja á skilið náð Guðs. Það er nauðsynlegt fyrir kirkjuna að setja sig í spor lifandi fólks og skoða sjálfa sig með gagnrýnum augum. Hvaða þýðingu hefur kirkjan fyrir kristið fólk með mismunandi lífsstíl? Stendur kirkjan undir þeim viðhorfum sem Jesú sýnir okkur þegar hann faðmar að sér nafnlausan “mannfjölda” sem ómetanlega einstaklinga? Við öll erum hinir “nafnlausu”. Án þessa sjálfsskilnings getur kirkjan ekki verið sönn kirkja sem stendur með öllum jarðarbörnum í þessari dimmu veröld. Það er margt samkynhneigt kristið fólk og fjölskyldur þeirra sem langar í faðm kirkjunnar. Að mínu mati þarf kirkjan á þeim að halda til að vera sönn “kirkja” Jesú Krists. Samkynhneigð er ekki vandamál. Vandamál er viðhorf okkar kirkjunnar til hennar. Þetta varðar grundvallaratriði kirkjunnar, sem sagt, fyrir hvað stendur kirkjan, hvað er samfélag heilagra sem eru réttlættir einungis fyrir framan náð Guðs? Mál samkynhneigðra innan kirkjunnar snertir ekki bara samkynhneigða kristna einstaklinga og fjölskyldur þeirra heldur okkur öll sem erum hluti af kirkjunni.

(Prestur innflytjenda, 7. febrúar 2004 Mbl.)

css.php