Þjóðerni – bara hitt eða þetta?

HVAÐ er þjóð? Á einfaldan hátt mætti skilgreina þjóð sem “pólitískt og menningarlegt samfélag manna með tiltekið land, lög eða annað félagskerfi, þ.á m. vald til þess að viðhalda stjórnkerfinu”.

Að baki hverrar þjóðar liggur sjálfsmynd hennar, sem ákveður hvers konar þjóð hún sjálf er. T.d. ákveður sjálfsmynd Íslendinga íslensku sem opinbera tungu þjóðarinnar. En í þjóð eins og Belgíu þar sem fleiri en ein tunga er töluð geta verið fleiri en eitt opinbert tungumál.

Þjóðarsjálfsmynd er ekki alltaf skýrt hugtak. Hún getur stundum verið búin til í þeim tilgangi að stuðla að einingu þjóðarinnar eftir að þjóðin hefur mótast. Svokallaðar goðsagnir eru notaðar til þess hjá næstum öllum þjóðum. T.d. eru í Bandaríkjunum fáninn “stars and stripes” og slagorðið “land of freedom” viðfangsefni þjóðartrúar, en þau hjálpa Bandaríkjamönnum að halda í sameiginlega sjálfsmynd sína sem Bandaríkjamenn.

Fátítt er að þjóðir séu algerlega einsleitar, þ.e. þær samanstandi af aðeins einum etnískum hópi. Það er sagt að aðeins 10 prósent þjóða í heiminum séu einsleitar þjóðir. Eins og hver þjóð, hefur einnig sérhver etnískur hópur sína sjálfsmynd og einkenni. Goðsagnir eru einnig notaðar til þess að aðgreina sig frá öðrum etnískum hópum. Goðsagnir þessara þjóðarbrota eru oftast tengdar við frumsögu þeirra um hvaðan þeir eru upprunnir, sem sagt hverjir þeir eru. Einnig geta goðsagnir etnískra þjóðarbrota verið um forfeður þeirra, trú, tungumál eða jafnvel um matarsiðvenju, ofl. Þegar margir etnískir hópar eru til staðar í einni þjóð verður einn þeirra eðlilega ríkjandi. Þess vegna skarast þjóðarsjálfsmyndin og sjálfsmynd þessara etnísku þjóðarbrota að vissu leyti en þær eru ekki oftast sú sama.

Nú er sýnd í kvikmyndahúsum mynd sem heitir “Perl harbor”. Hún fjallar um áras Japana á Hawaii í seinni heimsstyrjöldinni. Áður en hún var frumsynd í Bandaríkjunum tjáðu japanskir Bandaríkjabúar áhyggjur sínar formlega af því að kvíkmyndin myndi rifja upp andúð gagnvart japönskum íbúum í Bandaríkjunum. Þetta er gott dæmi um hvernig þjóðarsjálfsmynd getur rekist á sjálfsmynd etnísks þjóðarbrots í landinu.

Allavega er þjóðarsjálfsmyndinni ætlað að halda einingu meðal mismunandi etnískra hópa í landinu. Þess vegna leggur þjóðarsjálfsmynd yfirleitt mesta áherslu á borgaraleg gildi sem eru jafnþýðingarmikil fyrir alla etníska hópa landsins. T.d. er slagorðið “Amerika is land of freedom” borgaralegt hugtak án tillits til þess hvaða etnísks hóps maður tilheyrir. Þessi munur á áherslu milli þjóðarsjálfsmyndar og sjálfsmyndar etnískra þjóðarbrota hlýtur að vera mjög skiljanlegur.

Nú snúum við okkur til Íslands þar sem við lifum í dag. Mig langar til að segja það fyrst og fremst að Ísland er eitt af fáum dæmum um þjóð sem samanstendur af næstum aðeins einum etnískum hópi. Hér hefur verið svo til einsleitt samfélag. Þess vegna er munurinn milli þjóðarsjálfsmyndar og etnískrar sjálfsmyndar mjög óskýr á Íslandi. Margir telja jafnvel að hugtakið “ethnic” sé ekki til í íslensku ef við notum orðið “ethnic” nákvæmilega samkvæmt orðaskilgreiningu. En ég ætla ekki að fara nánar út í skilgreiningar á orðinu “ethnic” hér.

Það sem er áhugavert er að etnísk sjálfsmynd er líka beinlínis þjóðarsjálfsmynd á Íslandi. Eins og hjá öðrum þjóðum eru goðsagnir líka til á Íslandi. Þær eru t.d. sögur um að Íslendingar séu harðgerir afkomendur víkinga, dýrkun á íslenskri tungu, trú á hreinleika íslenskrar náttúru eða meðvitund um að tilheyra þjóðkirkju. Svona goðsagnir varða forfeður Íslendinga, tungu og trú. Þessi atriði spegla sterklega einkenni etnískrar sjálfsmyndar.

Hins vegar sjást tiltölulega sjaldan borgaraleg einkenni eins og tilvísun í stjórnarskrá í daglegu lífi fólks eða umburðarlyndi við framandi lífshætti. Notkun erlendrar tungu í þjóðfélaginu fær frekar neikvæð viðbrögð.

Svona aðstæður sýna okkur, að mínu mati, að á Íslandi hafi etnísk sjálfsmynd og þjóðarsjálfsmynd sem tengd er við borgaralegar hugmyndir enn ekki þróast að neinu marki. Þess vegna er einkenni íslenskrar þjóðernisvitundar sprottin af aðeins tveimur þáttum, þ.e. annaðhvort ertu “íslenskur” eða “útlenskur”. Við þekkjum t.d. öll auglýsinguna. “Íslendingar borða SS-pylsur” eða “íslenskt; já, takk”. Þess konar fullyrðing “Íslendingar gera hitt eða þetta” sýnist mér endurspegla fasta þjóðernisvitund Íslendinga og einnig gefa okkur mjög etnískan tón. Múslimar á Íslandi borða ekki pylsur því að það stangast á við etníska reglu þeirra. Ég ætla ekki að gagnrýna SS-pylsur hér, en málið er að þjóðernisvitund sem er ekki aðskilin frá etnískum tónum sést talsvert oft í þjóðfélaginu. Svona þjóðernisvitund styrkir ekki aðeins viðhorf Íslendinga til að krefjast einhliða aðlögunar innflytjenda að íslenskum gildum, heldur býr jafnvel til lög og reglur í slíkum tón.

Mín fullyrðing er sú að á Íslandi skorti sjálfsmynd borgaralegs þjóðfélags og að þjóðin þurfi að þróa þjóðarsjálfsmynd sína fram yfir etníska sjálfsmynd. Þjóðin er nefnilega að þróast í áttina að því að verða að fjölmenningarleg þjóð og þá er óhjákæmilegt að skapa nóg pláss og tækifæri fyrir “ó-íslenska” íbúa og að viðurkenna tilveru og framlag þeirra til þjóðfélagsins á réttan hátt.

Þetta er ekki aðeins málefni Íslendinga. Við innflytjendur verðum sjálfir að vinna með málið. Við skulum benda á tilveru okkar í þjóðfélaginu með því að taka virkan þátt í því, til þess að byggja upp saman þjóð með “innfæddum” Íslendingum.

Ég á tvö börn en móðir þeirra er íslensk. Ég man þegar bandarískur vinur minn sagði eitt sinn við mig. “Toshiki, fólk segir kannski að börn ykkar séu hálfjapönsk og hálfíslensk en það er ekki rétt. Þau eru tvöfalt, bæði japönsk og íslensk.” Ég óska þess að svona fjölbreytni verði hluti af fjársjóði Íslands í náinni framtíð.

(Prestur innflytjenda, 22. júní 2001 Mbl.)

css.php