Í Morgunblaðinu 19. september sl. birtist frétt um atvinnuleysi Pólverja hérlendis. Atvinnuleysi erlendra ríkiborgara mælist rúm 8% en 60% af þeim hópi eru Pólverjar. Í greininni var bent á að ein helsta hindrunin fyrir Pólverja (og aðra útlendinga) á vinnumarkaði væri ónóg kunnátta í íslensku.
Margir vinnuveitendur setja nú stífari skilyrði varðandi íslenskukunnáttu en áður. Í greininni segir Hrafnhildur Tómasdóttir, sviðsstjóri vinnumiðlunar- og ráðgjafarsviðs hjá Vinnumálastofnun: „Við erum að leggja mat á þörf fyrir íslenskunám, hvort það þurfi að skipuleggja með öðrum hætti en við höfum gert. Það virðist ekki hafa skilað þeim árangri sem vænta mætti.”
Síðan benti hún á hugsanlega nauðsyn þess að kenna íslensku tengda starfsgreinum.
Sú ábending að íslenskukunnátta sé mikilvæg fyrir innflytjendur er alls ekki ný af nálinni en umræðan snýst þó sjaldan um hvers konar íslensku innflytjendur eigi að læra og að því leyti fagna ég orðum Hrafnhildar.
Hún bendir raunar einnig á það að, réttilega, að fyrir hrun höfðu margir útlendingar lært íslensku samhliða vinnu sinni, en eftir það virðist íslenskukennsla útlendinga hafa farið fyrir ofan garð og neðan og er tilviljunarkenndari.
Þá er fólk ekki alltaf meðvitað um hversu umfangsmikið eigið tungumál er, eins og t.d. íslenskan. Fagorð eru til dæmis mjög mismunandi og lögfræðingur notar önnur orð í vinnu sinni en sá sem vinnur í blómaverslun eða leikskóla.
Ég uppgötvaði þetta sjálfur þegar ég hóf íslenskunám fyrir tuttugu árum á námskeiði í Háskóla Íslands og kaus fremur að læra „kirkjulega íslensku”, þar sem ég er prestur, frekar en að læra hvaða orð eru notuð yfir eldhúsáhöld á íslensku (sem er dæmigert námsefni í háskóla).
Ég held að ég hafi valið „starfstengda íslensku” án þess að hafa þá skýra meðvitund um slíkt hugtak. En á þeim tíma var brýn nauðsyn á því til að ég gæti starfað sem prestur.
Ég tel því best fyrir innflytjendur sem ætla að vinna hér að læra „starfstengda íslenska” í ákveðinni starfsgrein. Fólk lærir síðan smám saman íslensku á öðrum sviðum.
Það er mjög auðvelt að segja við innflytjendur: „Lærið íslensku”, en það er torvelt verkefni fyrir okkur. Sérstaklega þegar innflytjandi er enn að fóta sig í nýju landi og veit ef til vill ekki hvernig á að bera sig að til þess að hefja íslenskunám.
Það er mín skoðun að það sé ekki bráðnauðsynlegt fyrir innflytjanda að byrja á að læra heitin á mat og eldhúsáhöldum á meðan hann vill fá vinnu sem fyrst t.d. í byggingargeiranum eða er ef til vill byrjaður að vinna. Íslenskukennslan ætti að miðast fyrst og fremst við starfsvettvang hans.
Ég óska þess innilega að við tökum enn eitt skrefið til framfara í íslenskunámi fyrir innflytjendur og miðum þá við þarfir þeirra á vinnumarkaði.
(Prestur innflytjenda; 26.september 2012 Mbl.)