Samræða meðal trúarbragða

Fyrsta vika febrúar hvert ár er „Interfaith week” hjá Sameinuðu þjóðunum. Það má segja að þetta sé „vika samræðu meðal trúarbragða”.
Eitt af sérstökum verkefnum hjá mér, sem presti innflytjenda þjóðkirkjunnar, er að hvetja til umræðu meðal trúarbragða í landinu.

Innflytjendur eru talsvert tengdir öðrum trúarhefðum en hinni lúthersku. Auk þess á ég að þjóna fólki óháð trúarlegum bakgrunni þess ef þjónustu minnar er óskað. Því hefur verkefnið um samræðu meðal trúarbragða raunsætt mikilvægi hjá mér.

Í mjög stuttu máli sagt hefur samræða meðal trúarbragða tvær hliðar. Önnur er trúarbragðafræðileg samræða eins og samanburður kenninga hverra trúarbragða og hin eru bein samskipti meðal einstaklinga, sem hafa mismunandi trú eða trúlaust viðhorf.
Mikilvægi trúarinnar fer eftir manni, en nauðsynlegt er að bera virðingu fyrir trú hvers einstaklings.

Varðandi starfsemi um samræðu meðal trúarbragða, hef ég oft mætt misskilningi fólks og fordómum eins og: „Þú heldur að öll trúarbrögð séu þau sömu og byggist á sama grundvelli” eða „Telur þú að það skipti engu máli hvaða trú maður aðhyllist?”

Misskilningur af þessu tagi stafar, ef til vill, af því að viðkomandi blandar saman virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum og hlýðni við þau. En ég er ekki með slíkrar skoðunar.

Ég gekk í kristna kirkju í Japan. Í Japan er minna en 1% af íbúum þess kristinn. Kristin kirkja er algjör minnihlutahópur og þess vegna mætum við ýmiss konar óþægindum eða jafnvel mismunun í trúariðkun okkar.
Samt heldur kristið fólk í Japan áfram að leggja trú sína á Krist, þar sem kristin trú er sérstök og mikilvæg fyrir það.

Margir halda í kristna trú sem minnihlutahópur í heiminum og á ákveðnum svæðum fylgir því raunveruleg hætta að vera kristinn. Hið sama má segja um aðra trúarlega minnihlutahópa en kristna. Við myndum óvirða þá ef við segðum eitthvað í þá veru að „öll trúarbrögð séu eins,” án þess að velta málinu vel fyrir okkur.

Að halda fast í eigin trú er eitt og að bera virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum er annað. Og einnig eru sérhver trúarbrögð mismunandi og alls ekki eins. Þetta er grundvöllur fyrir samræðu meðal trúarbragða að mínu mati.

Viðurkenning um mun

Er ég að leggja of mikla áherslu á mun meðal trúarbragða? Það er jú mikilvægt að finna út sameiginlegt atriði meðal trúarbragða og manna. Jafngildi manneskja og virði sem sköpun Guðs er stór forsenda fyrir okkur og þess vegna get ég þjónað fólki óháð trúarlegum bakgrunni í raun.

Engu að síður tel ég að samstaða sem forðast að horfast í augu við mun sé eins og hús byggt á sandi. Það lítur út fyrir að vera þægilegt í góðu veðri, en stenst ekki þegar stormur slær. Byggist áreiðanleg samstaða og gagnkvæmur skilningur ekki á því að við fyrst viðurkennum mun okkar á milli og síðan finnum hvað trúarhefðir okkar eiga sameiginlegt?

Þannig er viðleitni til samræðna meðal trúarbragða allt annað en að blanda öllum trúarbrögðum saman og gera þau eitt eða líta fram hjá sérkennum hverrar trúar og láta eins og það skipti mann engu máli hvaða trú maður aðhyllist.

Raunverulegar samræður eru til þess að skapa djúp tengsl við náunga okkar og nágranna í samfélaginu.

(Prestur innflytjenda, 5. feb. 2013 Mbl.)

css.php