Spurning: Eru samkynhneigðir hluti af sköpun Guðs eða eru þeir fráhvarf frá henni? Til að leita svara við þessari spurningu ætla ég að íhuga málið með tilliti til kristinnar trúar. Ég vil í þessu samhengi nýta mér hugleiðingar dr. Karl Barth sem er einn áhrifamesti guðfræðingur 20. aldarinnar. Ég játa það fyrirfram að ég dáist að Barth og er oft sammála röksemdafærslum hans. Ég er hins vegar ósammála ummælum hans um samkynhneigð, sem hann dæmir sjúka og synduga mótsögn við Guð.
Kyn og trú
Í kristinni trú liggur beint við að skilgreina manneskju út frá tveimur meginsjónarmiðum. Annars vegar getum við hugsað okkur manneskju sem “sett er í samband við Guð” og hins vegar “manneskju sem sett er í samband við aðra manneskju”. Hvað síðarnefnda atriðið varðar mætti hugsa sér slíkt á þrjá mismunandi vegu á milli karls og konu: a) samband á milli karls og konu sem nánustu stuðningsmenn hvors annars í lífinu, eða m.ö.o. „gagnkvæma hjálpara“ b) kynferðislegt samband c) hjónaband. Karl Barth leggur áherslu á að við eigum ekki að ofmeta kynferðislegt samband fólks eða hjónaband. Hvort manneskja gifti sig eða ekki, eða hvort hjón eignast barn eða ekki, getur aldrei verið úrslitatriði þegar líf fólks saman er metið að verðleikum. Það mikilvægasta í sambandi karls og konu er það að vera meðvitaður um takmörk sín sem manneskja. Með því einungis að skilja takmörk sín getur sérhver manneskja meðtekið eiginn maka og hlotið farsæld og blessun Guðs. Þannig er æðsti hluti hjónabandsins einfaldlega það “að lifa saman”.
Rök Barth eru skýr og ég er sammála honum í þessum málum þegar hér er komið við sögu. Nú fer hann hins vegar að gefa sér ákveðna hluti án þess að gera fyrir þeim sannfærandi grein. Hann kemst t.d. að þeirri niðurstöðu að kynjaskipting og samkynhneigð sé flótti fólks frá því að horfast í augu við takmarkanir sínar. Hér finnst mér rökstuðingur Barth bágborinn. Hann fellur í sömu gryfju og ótal margir fyrirrennarar hans: hans eigið gildismat, tilfinning og hleypidómar taka völdin og frekari rökstuðningur er látinn liggja á milli hluta.
Mín spurning er einföld: Hvers vegna geta tveir karlmenn saman eða tvær konur saman ekki verið “gagnkvæmir hjálparar” og náð æðsta stigi sambands einnar manneskju við aðra? Þegar betur er að gáð kemur fram að Barth telur nær ómögulegt að skilgreina hvað sé „eðli“ karls eða konu. Það sem við álítum “karlmennsku” eða “kvenleika” litast, skv. Barth, fyrst og fremst af okkar persónulegu skoðunum og tíðaranda hverju sinni. Hugmyndir okkar um karla og konur eru því sífelldum breytingum háðar. Ef þetta er rétt, hvers vegna verðum við að leggja þá svona mikla áherslu á skilin á milli karla og kvenna?
Þegar við notum hugtakið “gagnkvæmir hjálparar” hugsum við mörg fyrst og fremst um samband karls og konu. Hugmyndin um karl og konu sem gagnkvæma hjálpara er að mínu mati bæði myndræn og kynferðisleg. Hún er hins vegar ekki guðfræðileg. Ef tilvera manneskjunar er full takmarkana þá getum við ekki hugsað um manninn eingöngu út frá líffræðilegu sjónarhorni, heldur verðum við að velta fyrir okkur stöðu hans í guðfræðilegu og heimspekilegu samhengi. Hvers vegna þarf tiltekin manneskja, sem bætir annarri manneskju upp takmarkanir sínar og skort, að vera af gagnstæðu kyni? Ég sé í þessum æðsta skilningi á sambandi einnar manneskju við aðra engin rök fyrir því að viðurkenna ekki samkynhneigð pör sem „gagnkvæma hjálpara“. Við skulum minnast áminningar Karls Barth, jafnvel þótt hann gleymi henni stundum sjálfur, og ekki gera of mikið úr kynferðislegum áherslum í samskiptum kynjanna!
Líf sem einstakt tækifæri
Annað atriði sem mér finnst mikilvægt að benda á varðandi málefni samkynhneigðra er einstakleiki mannlífsins. Þetta er ekki oft rætt, en er þó atriði sem Barth leggur mikla áherslu á í mismunandi samhengi. Mig langar til að tengja þessar hugleiðingar við umræðuna um samkynhneigð.
Líf okkar mannanna er ekki eilíft. Líf okkar er takmarkað með fæðingu (eða meðgöngu) og dauða. Þótt við séum tengd við eilífðina í trú okkar á Guð þýðir það ekki að við getum lifað endalaust hér á jörðinni. Við fáum líf sem einstakt tækifæri og þar sjáum við okkar eigin takmörk. Þetta er mjög mikilvæg trúarleg hugmynd fyrir trúað fólk. Guð leyfir okkur aðeins að lifa lífi okkar með þessum takmörkunum og býst við því að við svörum með ákalli til hans. Þess vegna hefur Guð skapað hjálpara fyrir sérhverja mannveru og samband milli þessara tveggja manneskja birtist sem ást. Ef við tökum þennan einstakleika lífsins alvarlega, hvernig getur það þá verið rétt fyrir augum Guðs að hafna ástinni aðeins af því að hún er milli fólks af sama kyni? Ef við afneitum ást í lífi mannsins erum við þá ekki í raun að afneita heildarlífi hans og persónu? Eiga samkynhneigðir að ljúka lífi sínu án þess að þekkja gleði og hjartanlega blessun fyrir ást sína?
Að þessu leyti ber kirkjan þunga ábyrgð í málinu. Þótt lög og samfélagskerfi batni og mannréttindi séu tryggari en áður, þýðir það ekki að andleg þörf fólks sé uppfyllt. Svo framarlega sem viðhorf kirkjunnar til samkynhneigðra er á þá leið að “við sýnum ykkur samúð, en þið eruð ekki í lagi”, hvetur það þjóðfélagið til að halda áfram að aðskilja samkynhneigða frá “venjulegu” fólki.
Jesús sagði við Pétur: “Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum”. Drottinn gefur kirkjunni þetta himneska vald. Kirkjan á að nota lyklana með tillitssemi til einstakleika lífsins. Þetta er mikið álag fyrir okkur trúað fólk, en lykillinn er í höndum okkar til þess annað hvort að opna eða að loka. Við getum ekki falið hann og gleymt honum því að tíminn er ekki eilífur fyrir okkur.
Að lokum finnst mér rétt að tjá persónulegt álit mitt í þessum málefnum skýrt: samvist samkynhneigðra skal líta á sem hjónaband og vera vígt hjá prestum, ef þess er óskað.
(Prestur innflytjenda, 20. júlí 2002 Mbl.)