Komið þið sæl. Gaman að vera hér með ykkur í dag.
Í upphafi finnst mér rétt að skýra hvar ég stend varðandi jafnréttismál. Ég vil virkilega styðja jafnréttisbaráttu og er félagi í Femínistafélagi Íslands. Ég er enginn sérfræðingur í málum femínista en tel Ísland þó standa framar en önnur lönd á ýmsum sviðum jafnréttismála en á öðrum finnst mér enn ríkja karlaveldi.
Ég starfa daglega að málefnum innflytjenda og fjölmenningar en þeir Íslendingar sem sýna þeim málum áhuga og styðja eru kanski 90% konur. Karlmenn sýna málefnum innflytjenda og fjölmenningar varla nokkurn áhuga. Það er þó engu að síður staðreynd að það eru karlmenn sem taka stórar ákvarðanir sem skipta þennan hóp og þennan málaflokk miklu eins og t.d. að setja útlendingalöggjöf. Mér finnst það ekki í lagi. Karlmenn þurf að koma að málum innflytjenda fyrr í ferlinu, því annars er hætt við að mikilvægir þættir úr reynslu þeirrar innflytjenda glatist við stórar ákvarðanir, eins og t.d. hvernig erlendir feður glíma við erfiðleika í nýju landi.
Þess vegna fagna ég tækifæri eins og í dag, þar sem karlmenn sýna frumkvæði að umræðum sem snerta bæði jafnrétti og fjölmenningu.
Í dag ætla ég að tala um atriði sem mér finnst að gætu hjálpað ykkur að skilja stöðu karlkyns innflytjenda á Íslandi. Ég ætla að fjalla um stöðu þeirra feðra, samskipti þeirra við eigin börn, sérstaklega sem varða skólann og örstutt sem maka.
Íslensku foreldrum getur fundist erfitt að verða gott foreldri og skapa náið samband við börn sín. Það er aukaverkefni foreldri sem er innflytjandi að læra nýtt tungumál og kenna auk þess börnum sínum móðurmál sitt. Ef við hugsum um önnur menningaratriði sem innflytjandi á að læra hérlendis eða framandleika samfélagskerfisins er ekki erfitt að ímynda sér hversu mikið álag er á viðkomandi foreldri.
Enginn maður er eyland og það er sjaldnast hægt að líta á afmarkaða þætti í lífi einstaklingsins eins og menntun eða atvinnumál. Því vil ég horfa á líf innflytjandans og fjölskyldu hans í heildarsamhengi enda eru áhrifin oftar en ekki gagnvirk. Ég hef lært margt í starfi mínu sem prestur innflytjenda en ekki síður persónulega þar sem ég er einn þeirra innflytjenda sem sem tekið hafa búsetu á Íslandi.
Áður en ég held lengra langar mig að segja ykkur í örstuttu máli mína sögu. Ég kom til Íslands fyrir rúmum 13 árum. Ég var giftur íslenskri konu og eignaðist tvö börn, en þau eru núna 11 og 14 ára gömul. Við hjónin skildum fyrir sex árum en förum sameiginlega með forsjá barnanna. Ég get því talað af töluverðri reynslu um að vera útlenskur faðir og um samband foreldris af erlendum uppruna og barna á grunnskólaaldri. Í starfi mínu sem prestur innflytjenda hef ég kynnst miklum fjölda innflytjenda sem hafa sagt mér frá sinni reynslu sem er nokkuð samhljóða minni og virðist því vera algeng.
Fyrsta atriði sem ég bendi ykkur á er augljóst: Hvert barn í skólanum á sína fjölskyldu en þegar báðir foreldrar barns eða annað hvort er innflytjandi hefur sú staðreynd áhrif á uppeldi barnsins. Að byrja að búa í öðru landi en heimalandi sínu er allt annað en auðvelt. Ef mömmu eða pabba líður illa, tekur barn sjálfsagt eftir því og líður kannski líka illa. Börn eru einnig fljótari að ná tungumálinu en foreldrarnir og aðlagast nýjum aðstæðum í skólanum. Hvað gerist þá hugsanlega? Hugsum málið út frá sjónarhorni barnsins. Segjum núna að faðir er útlenskur en móðir er íslensk.
Þau gætu verið eftirfarandi:
· Pabbi talar ekki góða íslensku.
· Pabbi er ekki í góðri vinnu.
· Pabbi á fáa vini.
· Pabbi veit ekki jafnmikið um Ísland eins og feður annarra barna.
· Pabbi hefur aðra trú og siðvenjur en Íslendingar.
· Fólk sem kemur heim talar alltaf við mömmu.
· Fólk virðist forðast að tala við pabba.
Barnið upplifir togstreitu og fer að hugsa sem svo: “Ég elska pabba minn og virði hann en fólk virðist ekki gera það eins og ég. Pabbi gæti verið aumingji.
Allar þessar aðstæður skapa að sjálfsögðu einnig togstreitu fyrir okkur útlensku feðurna líka. Hugsum núna málið frá sjónarhorni föðurins:
· Ég skil ekki hvað barnið mitt er að gera í skólanum.
· Mér finnst erfitt að tala við kennara barnanna minna.
· Mér finnst erfitt að kynnast öðrum foreldrum.
· Ég get ekki aðstoðað barnið nægilega vel í heimanámi.
· Barn mitt treystir mér ekki nægilega.
· Ég þarf að læra íslensku.
· Ég þarf að kenna barninu mínu mitt móðurmál, en það er enginn tími til.
· Ég óttast að samskiptin mín við börnin muni slítast vegna tungumálakunáttu.
Fyrir föður barns er áhætta fólgin í þessum aðstæðum og tímamótum. Virðuleiki hans sem föður barnsins er í hættu. Sérstaklega verður hún meiri ef feðurnir koma úr menningarheimi þar sem staða fjölskylduföðursins á að enduspegla sterkt vald og virðingu en það gildir t.d. í flestum löndum í Asíu, Afríku og mið- og austur-Evrópu. Hér er ákveðið “identity crisis” til staðar.
Næsta atriði sem ég vil benda á kemur í beinu framhaldi af því fyrra. Þegar fjölskyldufaðirinn er í áðurnefndum aðstæðum hafa þær iðulega áhrif á hjónabandið, sérstaklega ef konan er íslensk en þá hefur hún oft betri þekkingu og aðgengi að samfélaginu. Stundum eru aðstæður þannig að konan er fyrirvinna fjölskyldunnar og þegar fram líða stundir getur hún byrjað að vorkenna manni sínum og að vera pírruð. Þegar samskiptin á milli foreldranna eru ekki í jafnvægi, á hvorn veginn sem það er hefur það að sjálfsögðu áhrif á barnið og uppeldi þess, því foreldrar eru fyrirmyndir.
Ég ætla ekki að segja ykkur að skólarnir eigi að bera ábyrgð á fjölskyldumálum skólabarna. Það sem mig langar hins vegar til þess að benda á er að einhver hinna svokölluðu nýbúabarna gætu verið með bakgrunn sem svipar til þess sem ég var að lýsa. Mér finnst nauðsynlegt að þeir sem vilja skilja stöðu barna af erlendum uppruna séu meðvitaðir um þennan bakgrunn og taki tillit til hans en muni jafnframt að þessi lýsing á ekki við alla innflytjendur. Það er mikilvægt að við búum ekki til staðalímynd um innflytjendur því hún er ekki til. Við þurfum hins vegar að vera tilbúin að læra af reynslu okkar og horfa jafnframt til framtíðar með því að taka á þeim meginþáttum sem gætu orðið til vandkvæða og finna leiðir til þess að bregðast við þeim áður en vandinn verður of umfangsmikill.
Það er mikilvægt að aðilar tengdir skólakerfinu vinni að forvarnarverkefnum svo að skólakerfið auki ekki á erfiði fyrir útlenska foreldra. Ég hef tekið eftir því að Íslendingar almennt, ekki aðeins í skólakerfinu, tala frekar við íslenska foreldra og reyna að halda samband eingöngu við þá ef það er hægt.
Ég hef upplifað slíkt sjálfur. Stundum var það slæm reynsla. Þegar konan mín fyrrverandi og ég mættum eitt sinn í viðtal til kennara barnsins okkar talaði kennarinn næstum aðeins við konuna mína, sem er íslensk. Þegar ég spurði hann spurninga um heimanám í íslensku fékk ég svarið “en þú getur ekki kennt því íslensku”. Núna er mér alveg sama hvernig kennarinn metur hæfni mína til þess að kenna barninu mínu íslensku en hef meiri áhyggjur af viðhorfi hans og þá á áhrifum á barn mitt í daglegu skólalífi.
Jafnvel þótt starfsfólk innan skólakerfisins séu ekki með neikvætt viðhorf til innflytjendaforeldra þá getur eins konar sambandsleysi við það átt sér stað, þar sem það er bersýnilega auðveldara að hafa samband við íslenska foreldrið ef það er til staðar.
Í dag vil ég leggja áherslu á samband á milli skóla og útlenska foreldra skólabarna. Að þessu leyti er mér sama hvort faðir barns sé að ræða eða móðir. Það er ekki hægt að tala um innflytjendabörn án þess að taka tillit til fjölskyldna þeirra.
Að mínu mati eru þrjú atriði mjög nauðsynleg og mikilvæg. Í fyrsta lagi á skólinn að gefa útlenskum foreldrum færi á og hvetja þá til að taka virkan þátt í viðtölum, foreldrafundum og öðru skólastarfi.
Í öðru lagi gætum við, ekki síst starfsfólk skólanna, reynað að skilja betur hugmyndir annarra heima um menningu og menningargildi en hins íslenska með því að kynnast þessum foreldrum.
Ég hvet ykkur að búa til tækifæri til að fá að hlusta á útlenska foreldra sem eru kringum í ykkur, frekar en að bjóða sérfræðingi um t.d. málefni innflytjenda að halda fyrirlestur. Slík viðleitni skapar jákvætt viðhorf og getur orðið grunnur gagnkvæmra samskipta.
Í þriðja lagi þurfum við að gefa íslenskum börnum tækifæri til jákvæðra samskipta við börn af erlendum uppruna þannig að báðir hóparnir geti lært að virða þann menningarmun sem oft er á milli. Fjölmenningarleg kennsla ætti því að vera fléttuð inn í kennsluáætlanir skólanna, og fjölmennigarleg stefna í sérhverri starfsemi í samfélaginu, ekki síst í starfsemi í stjórnmálaflokkunum frá upphafi.
Kærar þakkir.
(Prestur innflytjenda)