Opinber ummæli og ábyrgð

Fyrir helgina vöktu ummæli Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar (ÚTL), talsverða athygli. Hún talaði í þætti á RÚV og sagði að fólk sem væri að leita hælis á Íslandi væri ekki hælisleitendur í raun og ætlaði sér að vinna ólöglega eða hefði í huga annan tilgang en hælisleit.

Hún hélt áfram: „Þetta getur verið fýsilegur kostur, að fá frítt fæði og húsnæði þegar málsmeðferðin er svona hrikalega löng.” Hún benti einnig á grunsemdir um að þeir væru að njóta „asylum shopping” hérlendis.

Mér skilst að eftirlit með dvöl útlendinga í landinu sé hlutverk ÚTL. Því finnst mér það óhjákvæmilegt að ÚTL skoði mál um hælisleitendur út frá fagmannlegu sjónarmiði. Ráðuneytið hlýtur að skoða mál með tilliti til pólitískra hagsmuna og frjáls félagasamtök eða aðilar munu horfa á mál með hliðsjón af mannúðarsjónarmiðum og á það t.d. við um mig. Ef slíkur gagnkvæmur skilningur er fyrir hendi getum við borið virðingu fyrir öðrum sem hafa aðra skoðun en við sjálf. ÚTL gæti séð eitthvað sem við sjáum ekki og öfugt.

Ég þekki nokkra hælisleitendur og hef hlustað á þá. Og ég tel að þeir séu ekki að njóta „asylum shopping” á Íslandi. Ég trúi sögu þeirra þegar þeir tala um ofsóknir sem þeir hafa mætt eða um eigin fjölskyldu eða börn sem eru aðskilin í heimalandinu. Já, einmitt. Ég hef ekki sannanir en að safna sönnunargögnum er ekki mitt hlutverk. Og því reyni ég – rétt eins og aðrir aðilar með mannúðarsjónarmið – að vera með hælisleitendum á biðtíma með því að stappa í þá stálinu þangað til ÚTL rannsakar áreiðanleika sagnanna.

Mér sýnist ummæli forstjórans komin langt út fyrir ramma hlutverks stofnunarinnar þó að ég taki tillit til þeirrar ábyrgðar sem hún ber í vandasamri stöðu. Ef ÚTL hefur svona neikvæða ímynd fyrirfram af sínum eigin skjólstæðingum eyðileggur það forsendur samfélagsins er varða málefni hælisleitenda. Þá langar mig að spyrja hvort ummæli forstjóra ÚTL í útvarpsþættinum séu í sátt við opinbera ábyrgð hennar? Er þetta í lagi?

(Prestur innflytjenda, 22.jan. 2013 FrB.)

css.php