Ljóð, tilfinningar og útlendingar

Umræðan um innflytjendur á Íslandi snýst oftar en ekki um mál sem varða vinnumarkað og réttindi í íslensku samfélagi. Í fjölmiðlum takmarkast umræðan nær alltaf við innflytjendur sem samfélagslegt fyrirbæri en sjaldnar er rætt um persónuleika, tilfinningar eða áhugamál einstakra innflytjenda.

Hvað varðar tilfinningarnar finnst okkur innflytjendum oft erfitt að tjá þær á íslensku eða á listrænan hátt eins og í bókmenntum, myndlist eða tónlist nema að hafa sérstaka hæfileika á því sviði. Okkur vantar farveg til þess að tjá tilfinningar okkar almennilega og koma þeim til skila til annarra Íslendinga. Því miður týnast tilfinningar okkar oft í umræðunni, verða á milli í einhvers konar gjá á milli innflytjenda og Íslendinga.

Trú mín á mikilvægi þess að opna augu allra fyrir tilfinningalífi innflytjenda er sífellt að styrkjast. Þá á ég ekki við að eingöngu sé hlustað á hvernig þeim líður á Íslandi, heldur að þeir (og þ.á.m. ég sjálfur) deili tilfinningum sínum með Íslendingum, eins og ást sinni á fjölskyldunni, gleðinni yfir fagurri náttúrunni eða voninni sem þeir bera til framtíðarinnar. Kjarni hugmyndar minnar er að innflytjendur sýni einnig á sér tilfinningalegu hliðina og að fólk fái þá í kjölfarið betri skilning á því að allar manneskjur eru eins í kjarna sínum og jafnar, sama hvaðan þær koma úr heiminum. Tilfinningar eru sterkur þráður í lífi sérhverrar manneskju og það sem tengir eina við aðra. Með því að hvetja til og stunda tilfinningaleg samskipti geta menn öðlast mannlegt innsæi og virðingu sem ekki fæst í hinni hefðbundnu umræðu um innflytjendur sem samfélagslegt fyrirbæri. Með því að setja okkur í spor og reyna að skilja tilfinningar annarra getum við bæði lært af öðrum og tileinkað okkur jafnvel þætti úr lífsýn þeirra. Þannig getur tilfinning orðið að ómótstæðilegum krafti sem þenur út veggi og takmörk skynseminnar og þá orðið til þess að ýta manni til nýs skilnings.

Ljóð og útlendingar

Sem framhald af ofangreindum hugmyndum mínum langar mig að setja fram smáhugleiðingu um ljóðayrkingar á íslensku. Sjálfur hef ég mikinn áhuga á ljóðum þó ég hafi enga sérstaka menntun á því sviði. Ég byrjaði að yrkja fyrir tæpum þremur árum og hef haft mikla ánægju af. Það er ef til vill sérkennileg leið fyrir innflytjanda til þess að tjá tilfinningar þar sem hann hefur oft ekki fullkomlega tök á verkfærinu, þ.e. íslenskunni. Að því leyti er ljóðagerð ólík öðrum formum sem geta tjáð tilfinningar eins og myndlist eða tónlist sem eiga sér oft engin tungumálaleg landamæri. Mig langar samt að færa hér nokkur rök fyrir því hvers vegna ljóðlistin er ekki svo fjarri lagi eða óaðgengileg fyrir útlendinga. Í fyrsta lagi er ljóð oft beinskeytt tjáning tilfinninga. Þess vegna getur hver sem er prófað að semja ljóð því allir hafa tilfinningar. Í öðru lagi þarf maður ekki að hafa sérþekkingu á ljóðum, aðeins að kunna sæmilega íslensku og nota þann orðaforða sem maður hefur yfir að ráða þótt hann sé ekki fullkomin eða bókmenntalegur. Það þarf hins vegar oft að fá aðstoð hjá góðu fólki sem getur leiðbeint og hjálpað til við að leggja lokahönd á ljóðið. Ég er sjálfur svo heppinn að hafa í kringum mig margt gott fólk sem aðstoðar mig þegar ég yrki. Í þriðja lagi kostar ekkert að yrkja og í fjórða lagi fær maður við yrkingar tíma og þjálfun til þess að hugsa, ekki aðeins um tilfinningar sínar heldur einnig orð og málfræði íslenskunnar. Það er oft erfitt fyrir útlendinga að læra íslensku og tekur langan tíma en ljóðið veitir manni ómælda ánægju því það er oft sýnilegur árangur hins mikla lærdóms.

Mig langar að benda á heimasíðu áhugafólks um ljóð, www.ljod.is en þar getur hver og einn skráð sig og sent inn eigið ljóð. Vefurinn veitir öllum tækifæri, án tillits til menntunar, aldurs eða þjóðernis tækifæri til þess að koma ljóðum sínum á framfæri við aðra og á vefnum eru núna meira en tíu þúsund verk. Ljóð.is heldur einnig ljóðakvöld, eins og í tilefni Menningarnætur Reykjavíkurborgar, og þar geta skáldin hist. Það má því segja að Ljóð.is sé grasrótarhreyfing ljóðsins en ég myndi gjarnan vilja að aðrar menninarstofnanir gæfu ljóðskáldum eins og þar er að finna, sem mörg hafa hingað til ort fyrir skúffuna, og öðrum áhugamönnum um ljóðið tækifæri á námskeiðum um ljóðagerð og yrkingar og skapa frekari vettvang til þess að efla ljóðið á alla vegu. Skora ég hér með á þær til þess að huga að framkvæmdum á þessu sviði.

Lokaorð

Mig langar til þess að hvetja alla innflytjendur til þess að lesa íslensk ljóð, kynna sér ljóðagerð og taka þátt í frábærri ljóðamenningu á Íslandi og njóta um leið. Ég segi það því ég hef sjálfur sérstakan áhuga á ljóðum og vegna þess að almennt þykir mér mikilvægt að innflytjendur geti tjáð persónulegar tilfinningar sínar á fjölbreyttan, jákvæðan og skapandi hátt.

Orð

Þessi farlama orð
eru fjötruð við tungu mína, sálu
og spor mín á jörðu

Þessi fjörugu orð
opna mér heim þúsund skálda
og laða mig að paradís

Orð mín, farlama og fjörug
eru himnagjöf

(Prestur innflytjenda, 4. ágúst 2004 Mbl.)

css.php