Kvennahreyfingin og innflytjendur

Ráðstefna Norrænu Ráðherranefndarinnar “Fjölmenning og jafnrétti kynjanna á Norðurlöndum” var haldin í Malmö í maí s.l. Tilgangur ráðstefnunnar var að sjá jafnréttismál á Norðurlöndum í nýju ljósi með því að horfa á innflytjendakonur þar. M.ö.o. var tilgangurinn að leita að sambandi milli jafnréttismála og innflytjendamála. Ísland sendi tæpra tuttugumanna fulltrúahóp þangað og ég fylgdi þeim sem eini karlmaðurinn. Mig langar til að deila með lesendum hugsunum mínum af þessu tilefni.

Eru innflytjendamál kvennamál?

Í fyrstunni vil ég benda á fyrirbæri á Íslandi sem ég er löngu búinn að taka eftir. Þeir sem sýna áhuga á málefnum innflytjenda og menningarlegri fjölbreytni eru aðallega konur, en karlmenn eru yfirleitt afskiptalausir. Ef ég tala aðeins út frá eigin reynslu, þegar ég tjái skoðun mína á málefninu, fæ ég jákvætt álit, spurningu eða stuðning oft frá konum, t.d. kvenprestum. Venjulega eru karlprestar þegjandi og mér sýnist að viðkomandi málefni sé einfaldlega utan þeirra áhugasviðs. Ég vil taka áþreifanlegri dæmi.

  • Ýmsar stofnanir á höfðuborgarsvæðinu sem snerta málefni innflytjenda móta samstarfsnefnd og senda fultrúa sinn í hana. Þ.á.m. eru t.d. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Félagsþjónustan í Kópavogi, o.fl. Í nefndinni sitja 21 fulltrúar og karlmenn eru aðeins fimm.
  • Flestir starfsmenn í stofnunum sem veita þjónustu beilínis til útlendinga eins og í Alþjóðahúsi, Fjölmenningarsetri á Vestfjörðum eða Alþjóðastofu á Akureyri eru konur. Ég geri athugasemd við þetta sérstaklega. Þetta er ekki brot á jafnrétti kynjanna, heldur frekar eru langflestir umsækjendur með bestu hæfileikana konur.
  • Í fyrra var málþing haldið á vegum Biskupsstofu um mismunandi trúarbrögð á Íslandi. Þátttakendur fyrir utan fyrirlesara voru kringum 60 og karlmenn voru aðeins fjórir.

Þetta er bara dæmi um að konur eru afar ríkjandi kyn í rauninni í málefnum innflytjenda og menningarlegrar fjölbreytni á Íslandi.

Þegar ég sótti i ráðstefnu um málefni innflytjenda hjá kirkju, annari í Hamburg og hinni í Ósló var hlutfall kynjanna meðal þátttakenda jafnara eða 6 karlkyns á móti 4 kvenkyns. Því er erfitt að segja að yfirburður kvenna sem sést á Íslandi sé algengt fyrirbæri í Evrópu.

Ég þarf að benda á eitt atriði í viðbót, þótt mér þyki leitt að viðurkenna það. Þegar ég bendi á afskiptaleysi karlmanna af málefnum innflytjenda, á það við ekki eingöngu um íslenska karlmenn, heldur karlmenn af erlendum uppruna líka. Konur af erlendum uppruna tjá skoðun sína eða taka þátt í áþreifanlegri starfsemi meira eða minna. Aftur á móti er það sjaldgæft að karlar heyrist eða sjáist á staðnum. Hve oft heyrið þið innflytjendakarlmenn tala fyrir hönd annarra útlendinga? Þá á ég ekki við innflytjendur sem eru nýkomnir til landsins og glíma við eigið líf, heldur hugsa ég um þá sem hafa verið lengi búsettir hér og eru með góða tungumálakunnáttu og aðstöðu í samfélaginu. Þeir gætu lagt málefninu lið ef þeir vildu það.

Hver er ástæða þessa?

Ofangreint er fyrirbæri sem ég get bent á í íslenska þjóðfélaginu. Það er auðveldi hluti málsins. Erfiðari hluti er að sundurgreina fyrirbærið og komast að ástæðu afskiptaleysis karlmanna í málinu. Ég er ekki búinn að kanna málið og get ekki tilnefnt ástæðuna eða sýnt fram rökstuðninginn. Tilgangur minn í þessari grein er að vekja athygli á málinu. Eftirfarandi er tilgáta mín.

Af hverju sýna karlmenn ekki eins virkan áhuga og konur á málefnum innflytjenda eða menningarlegrar fjölbreytni? Ég giska á fernt:

a) Í stofnunum sem eru tengdar við inflytjendamál starfa fleiri konur en karlmenn.

b) Innflytjendamál færa ekki fé í aðra hönd.

c) Núverandi samfélagskerfi er undir stjórn karlaveldis og þeir sem njóta valdsins vilja breyta aðstæðum sem minnst.

d) Hins vegar eru konur enn fjarlægðar frá valdi og vilja breytingu í samfélagskerfi,og þess vegna geta þær tekið á móti fólki í samsvarandi aðstæðum og samsamað sig auðveldlega málstað þeirra.

Gætu slíkar ágiskanir verið réttar? Ég get ekki sannað neitt á þessu stigi. Samt get ég bent á eitt atriði út frá reynslu minni. Varðandi málefni innflytjenda og menningarlegrar fjölbreytni eru konur komnar þremur til fjórum stigum á undan okkur karlmönnum. Sé tekið dæmi frá ráðstefnunni í Malmö, sýndu konur mér sveigjanlega hugmynd, þor og kannski kímnigáfu með því að láta karlmann fylgja með. Fyrir mann eins og mig, sem á að þróa viðkomandi málefni, virðist vera um tvennt að velja:

1) að hvetja karlmenn til að sýna meiri áhuga á málinu,

2) að leita leiða til að vinna með kvennhreyfingunni og fá meiri stuðning frá henni.

Mér sýnist skýrt hvort er raunsærra, en hvað finnst karlmönnum í þjóðfélaginu?

(Prestur innflytjenda, 3. júní 2003 Mbl.)

css.php