Kristin þjóð og trú hvers einstaklings

Flestar þjóðir heims virðast eiga ríkjandi trú. Það fer eftir hverri þjóð hve stór hluti þjóðarinnar játar þessa trú og hversu mikil bein áhrif hún hefur á þegna hennar. Íslendingar eru „kristin þjóð“. Ef kristið fólk myndi klæðast bláu í einn dag, búddatrúarmenn rauðu, múslímar hvítu, guðleysingjar gulu og svo framvegis þá myndi íslenska þjóðin í fjarlægð líta út að mestu blá en rauði, hvíti og hinir litirnir væru engu að síður jafnmikilvægir fyrir þjóðina.

Gildi kristinnar trúar fyrir íslensku þjóðina, menningu hennar og hefð hefur verið mikið í umræðunni nú í tengslum við samskipti skóla og kirkju og einnig varðandi aðskilnað ríkis og kirkju. Þeir sem meta mikils kristileg gildi í íslenskri menningu, sögu og venjum telja kristna trú vera ómissandi þátt og jafnvel kjarna í öllu þessu. Þeim finnst eins og það þyrfti að afsala sér trúnni á Guð ef samfélagskerfið breyttist í þá átt að þátttaka kirkjunnar yrði takmörkuð í skólum eða ákvæði um þjóðkirkjuna yrði tekið út úr stjórnarskránni. Og þar sem kristin gildi eru kjarni menningar Íslands og hefðar þýddi það í þeirra huga hrun íslenskrar menningar og hefðar.

Ég er innflytjandi og því ég vil ekki vera of afskiptasamur. Ég ber virðingu fyrir menningu Íslands, hefðum og venjum eins og þeim sem varða samskipti kirkju og þjóðar í margvíslegum skilningi. Á sama tíma er ég kristinn maður og því langar mig að leggja nokkur orð í belg í þeirri umræðu sem varðar trú og íslenska menningu. Þegar við skoðum almennt samband á milli menningar hvaða þjóðar sem er og trúar, þá er trúin oft forsenda eða áhrifamikill þáttur í mótun menningar og hefða. Alþingi Íslendinga ákvað að gera kristni að þjóðartrú árið 1000. Þaðan í frá mótaðist samfélagskerfið og ýmsar venjur smátt og smátt á kristilegum gildum í sögunni.

En sömuleiðis hefur menning eða hefð þjóðar einnig áhrif á mótun trúarbragða yfirleitt. Kristni mótaðist t.d. í menningarheimi Gyðinga og varð fyrir áhrifum frá menningu og hugmyndaheimi Forn-Grikkja. Þannig er menning, hefð og trú oftast samofin.

Menning og hefð er eitt, trú er annað

Það sem ég er að reyna að segja er að þó að kristin trú sé samofin menningu, hefð og venjum í sögu Íslands, þá á trúin ekki að koðna niður í því. Það á sérstaklega við þegar um trú sérhvers einstaklings er að ræða, sú trú er frjáls frá gildum menningar eða hefða viðkomandi einstaklings. Ég tel að gildi trúar eigi að varða fyrst og fremst raunveruleika manneskju í nútíð og framtíð en ekki fortíð. Trú er mikilvæg af því að hún breytir stöðu manns í nútíð og framtíð. Trú getur breytt gildismati manneskju, menningu eða samfélagsstöðu, en viðhald þjóðarmenningar eða hefðar er að mínu mati ekki aðalhlutverk trúarinnar. Af hverju þjáðist Jesús svo mikið í boðun fagnaðarerindis síns í menningu Gyðinga? Af því að hann var að breyta menningu og hefðum á þeim tíma. Þróun og breyting er óhjákvæmilega á móti viðhaldi menningar og hefðar að nokkru leyti.

Ástæða þess að ég skrifa þessa grein er ekki sú að ég vilji gera lítið úr menningarlegri og sögulegri tengingu milli kristinnar trúar og íslensku þjóðarinnar. Ég vil ítreka að ég ber mikla virðingu fyrir menningu Íslands og hefðum. Samt langar mig að segja að þrátt fyrir sérstaka tengingu milli kristinnar trúar og menningar á Íslandi, skulum við ekki blanda þessa tvennu of mikið saman. Við þurfum að reyna að draga línu á milli þessara tveggja atriða. Menning og hefðir eru eitt, trú er annað.

Það er auðvelt að leita skjóls í menningu og hefðum af hálfu kristinnar trúar, en ég tel að slík tilraun svipti trúna sínum styrkleika. Dag eftir dag stöndum við kristið fólk frammi fyrir kröfum um að líta á trú okkar í samræmi við svo margt annað eins og tilvist annarra trúarbragða, mannréttindi eða vísindalega þróun. Þetta er alls ekki alltaf auðvelt fyrir okkur í kirkjunni. Það er margt sem storkar trú okkar. Og í því ferli er lausnina ekki að finna á bak við menningarlegt skjól eða hefð. Við eigum að sýna fram á gildi trúar okkar með því að standa með henni og sýna styrkleika hennar, en ekki með því að benda á menningu þjóðar eða hefðir.

Mig langar til að íslenskir kristnir menn viti af því að óteljandi margir kristnir menn víða í heiminum, í Japan, í Kína, í Mið-Austurlöndum og víðar lifa trúarlífi sínu án þess að leita skjóls í menningarlegum hefðum eða venjum. Á slíkum stöðum hafa söfnuðir engin veraldleg efni til þess. Trúin er einungis kraftur til breytingar og leið til að frelsast.

Ég held að trú sem gerir ákveðna menningu og hefðir að forsendu tilvistar sinnar lendi í blindgötu fyrr en seinna. Það sem okkur kristna menn á Íslandi vantar er ekki trú vegna menningar og hefðar, heldur trú vegna raunveruleika nútíðar okkar og framtíðar.

(Prestur innflytjenda; 27. nóvember 2010 Mbl.)

 

css.php