Í vaxandi fjölmenningarlegri starfsemi í þjóðfélaginu, virðist kirkjan ekki vita hvernig hún á að haga sér og hvað hún á að segja. Það er alls ekki skammarlegt, heldur skiljanlegt. Forsenda fjölmenningarlegs samfélags er virðing fyrir gildismati hvers og eins. Grunnstefna kirkjunnar er hins vegar sú að boða og færa fagnaðarerindið til hvers einasta einstaklings í heiminum og vissulega er árekstur milli þessara tveggja viðhorfa. Í hvaða átt á kirkjan að stefna til að komast hjá þessum árekstri?
Sjálfsmynd sem nær til allra jarðarbúa
Til þess að hugsa málið vil ég fyrst og fremst skoða þann tíma og stað sem við lifum á þessari öld. Jörðin birtist núna skýrt fyrir augum okkar sem örk mannkyns. Í þeirri örk virkar aðskilnaðarstefna ekki lengur, en hún felst í því að menn byggi sjálfsmynd sína á einkennum sem greina þá frá öðrum og dragi svo línu á milli þeirra og hinna.
Stefna arkar jarðarinnar er frekar sambúðarstefna, þar sem sérhver hópur á jörðinni hlýtur sjálfsmynd sína í samhengi við aðra hópa og í samskiptum við þá.
Ég segi um kirkjuna, að henni sé það ekki lengur nægilegt að aðgreina sig aðeins með kristilegum einkennum. Hún verði jafnframt að sýna fram á viðhorf t.d. til annarra trúarbragða eða fólks sem er utan kirkjunnar. Hvernig metur kirkjan mismunandi trú fólks, sem er samferðarfólk okkar í örk jarðarinnar? Horfir hún á það á uppbyggilegan hátt? Eða telur hún það aðeins vera viðtakendur fagnaðarerindisins? Afstaða til þessa er ómissandi hluti af kristinni kirkju á 21. öld. Sjálfsskilgreining kirkjunnar á nefnilega að ná til allra á jörðinni og að sýna þeim fram á hver kirkjan er fyrir þá. Þannig verður kirkjan líka sjálf metin að verðleikum.
Það er alls ekki róttækt eða ókirkjulegt að hugsa á þennan hátt. Það að þjóna náungum sínum, hverjir sem þeir eru, hefur alltaf verið hjartsláttur kristinnar trúar.
Engu að síður er fólgin ákveðin aðskilnaðarstefna í kristninni eins og í flestum trúarbrögðum. Trúarbrögð hneigjast yfirleitt að því að aðgreina fólk sem getur farið til himnaríkis frá hinum sem geta það ekki. Í kristni þróaðist þessi aðskilnaðarhugmynd í kirkjum í Evrópu en þær voru reyndar ríkjandi afl í sögu kristninnar. Aðskilnaðarstefnan var þannig annars vegar fólgin í yfirburðakennd kristinna manna gagnvart íbúum utan Evrópu og hins vegar í áhugaleysi kristni á öðrum trúarbrögðum. Þessi yfirburðakennd og áhugaleysi er ástæða þess að kirkjan hefur lengi vanrækt að dýpka hugmyndir sínar um þá mannveru sem er ekki inni í kirkjunni. Að sjálfsögðu eru flestir kristnir menn í nútíma ekki lengur með slíka villu-hugmynd en afstaða hinnar evrópsku kristni breytist ekki svo auðveldlega.
Guðfræðileg útleiðsla og aðleiðsla
Aðskilnaðarstefna kirkjunnar er einnig nátengd trú á Biblíunni sem opinberun Guðsorðs. Biblían er dýrmæt gjöf sem við skulum þiggja og það sem kveðið er á í henni er mælikvarði lífsins. Það sem er ekki talað um í Biblíunnni, þurfum við að hugsa og þróa samkvæmt henni. Þetta viðhorf kallast guðfræðileg útleiðsla. “Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig” segir Guð og þess vegna koma önnur trúarbrögð ekki til greina. Hugmynd um opinberun Guðsorðs er að vissu leyti aðskilnaðarstefna. Sem prestur virði ég mikils þessa opinberun en viðurkenni jafnframt hættuna á misnotkun hugmyndar hennar. Guðfræðileg útleiðsla getur verið hættuleg þegar skilningur á orði Biblíunnar er rangur eða lélegur. Raunar getur maður “leitt út” álit, um hvað sem er, eða um tiltekið málefni, að geðþótta sínum með því að misnota Biblíuna sjálfa.
Aftur á móti er hugmyndin um örk jarðarinnar tengd við sambúðarstefnu. Hún felur í sér viðurkenningu á mannkyninu öllu sem sköpun Guðs og enginn er settur út af örkinni. Hún hvetur okkur til að hugsa málin jafnframt út frá reynslu hvers og eins. Við lærum ýmislegt af reynslu okkar. Við getum skilið virði hverrar og einnar manneskju út frá okkar eigin lífi. Við verðum að meta þessa opinberun kærleika Guðs sem birtist okkur utan Biblíunnar. Þetta má kallast guðfræðileg aðleiðsla en hún gerir okkur kleift að sjá ýmislegt öðruvísi en á útleiðsluhátt. Lifa ekki margir búddistar sínu lífi í friði þótt þeir trúi ekki á Guð okkar? Geta trúleysingjar ekki líka birt fegurð manneskju sem við getum hrósað? Guðfræðileg aðleiðsla útilokar ekki þessar spurningar og pælingar. Hún reynir að mynda breiðara sjónarhorn sem rúmar hugtak, sem er hafnað í guðfræðilegu útleiðslunni. Guðfræðilega aðleiðslan er guðfræði sem játar að kristni sé enn á leið þroskans.
Ég held að kirkjan eigi að hafa að leiðarljósi bæði hina guðfræðilegu útleiðslu og aðleiðslu. Of rík áhersla á útleiðsluna leiðir kirkjuna í öfgastefnu. Of rík áhersla á aðleiðslu gerir kristna trú að almennri hugmyndafræði. Við verðum að halda jafnvægi á milli þessa tveggja. Með því munum við kristnir menn geta haldið trú okkar á Krist og um leið borið virðingu fyrir öðru gildismati. Ég tel að lykill kirkjunnar að fjölmenningarlegu samfélagi liggi hér. Opnum dyrnar!
(Prestur innflytjenda, 16. maí 2003 Mbl.)