Innflytjendur aðlagist að íslenska samfélaginu

Þegar málefni innflytjenda eru rædd hérlendis, er mikilvægi þess að innflytjendur aðlagist íslensku samfélagi predikað nánast án frávika. Mér finnst mikilvægt og rétt að skýra hvað felst í þessu hugtaki út frá sjónarhóli innflytjandans en það er sjónarhorn sem heyrist miklu sjaldnar í umræðunni. Hvernig upplifir innflytjandi að flytjast til annars lands og aðlagast þar nýjum háttum og menningu? Hvað er það sem hann glímir við í þeirri aðlögun sem svo oft er talað um?

Mig langar aðeins til þess að deila hugleiðingum mínum með ykkur, því ég trúi því að Íslendingar hafi góðan skilning á þessum málum í umræðum um innflytjendamál og það geri umræðurnar raunsæjar og skapandi. Innflytjendur er að sjálfssögðu ekki allir eins og ég tala hér út frá minni reynslu sem er ekki algild en ég veit að margir hafa upplifað það sama.

Að vera útlendingur er líkt og þurfa endalaust að spyrja ,,Má ég vera með?“ eða ,,Má ég ekki? “Fyrir mig hefur hver dagur hingað til á Íslandi verið eins og að banka á nýjar dyr og opna þær. Þar sem ég tala íslensku sem er langt frá því að vera fullkomin eða lík þeirri sem innfæddir tala hef ég sífelldar áhyggjur af því hvort hún sé nægilega góð til þess að ég geti haldið uppi samskiptum. Þegar ég fer á samkomur hef ég oft áhyggjur af því hvernig móttökur ég fæ. Ef ég get farið inn í nýtt herbergi með friði er ég afslappaður: ,,Enn eitt herbergi í viðbót“. Í hvert skipti þegar ég reyni að opna nýjar dyr óttast ég að fá orð að innan eins og: ,,Nei, þér er bannað að koma inn hingað!“. Það er ekki vegna þess að ég þjáist af ofsóknarkennd heldur vegna þess að það gerist stundum. Og það er þung upplifun. Það þýðir þó ekki að Íslendingar séu almennt vondir eða fordómafullir í garð innflytjenda, þetta er oftar sérstök tilfelli.

Ekki sami maður

Það er ekki aðeins skortur á tungumálakunnáttu sem hindrar innflytjendur til þess að banka á nýjar dyr og komast inn í herbergi samfélagsins heldur margs konar siðvenjur. Það tók mig t.d. rúm þrjú ár að venjast því að kalla mér eldra fólk með skírnarnafni þar sem slíkt tíðkaðist ekki í mínu heimalandi Japan, Asíubúar eru heldur ekki eins beinskeyttir í tjáningu og mannlegum samskiptum og Íslendingar og starfshættir á vinnustöðum er ólíkir. Allt eru þetta atriði sem tekur tíma að melta og aðlagast í nýju samfélagi.

Með tímanum eru margir innflytjendur orðnir þreyttir og hræðast að banka á dyrnar í nýjum herbergjum í sínu dagsdaglega lífi. Sumir útlendingar eru nógu frekir eða læra að verða frkir, eins og ég sjálfur, til að halda áfram að berja á nýjar dyr.

Ég held að mér hafi tekst frekar vel að aðlagast íslensku samfélagi. Það er ekki bara vegna þess að ég hef sjálfur lagt mig fram heldur líka vegna þess að ég hef notið aðstoðar frá mörgum hérlendis. Ég er mjög þakklátur fyrir það en samtímis finnst mér það dálítið dapurlegt fyrir mig sjálfan. Að aðlagast í nýju landi er að breyta persónuleika sínum að vissu leyti. ,,Fullkomin og eftirsóknarverð aðlögun er þegar innflytjandi aðlagar sig að nýju heimalandi en viðheldur eða geymir samt menningu síns gamla heimalands“: getur ef til vill fólk sagt. En það er bara falleg hugmyndarfræði. Raunveruleikinn er sá að maður verður raunar að breyta sjálfum sér. Spurningin er einungis hversu mikið. Innflytjendur neyðast til þess að velja eitt í nýju heimalandi umfram annað í því gamla sem þeir ef til vill ólust upp í ef þeir vilja halda að vera í hinu nýja.

Talandi um sjálfan mig þá er ég ekki sami Toshiki Toma og kom til Íslands fyrir 14 árum. Ég votta eldra fólki eða yfirmönnum mínum ekki virðingu mína á sama hátt og ég myndi gera sem Japani búsettur í Japan. Ég er orðin beinskeyttari í framkomu og frekari og það þykir óvirðulegt í Japan og mér er sama núna þótt einhver tali illa um mig. Af til dæmis þessum ástæðum held ég að ég gæti ekki búið í mínu gamla heimalandi aftur. Ég kann það ekki lengur, ég þyrfti að læra svo margt upp á nýtt aftur.

Ég er ekki að kvarta yfir því. Það er mín eigin ákvörðun að vera hér og aðlögun er nauðsynleg. Það sem mér finnst samt leitt er að maður þarf að kasta fyrir róða góðum eiginleikum frá sínu heimalandi í ferli aðlögunar. Aðlögun virðist vera, a.m.k. fyrir mig, eins og ferli þar sem að hjarta mitt var hert og jafnvel steingert.

Tilgangur minn í þessari grein er ekki að neita mikilvægi aðlögunar fyrir innflytjendur. Aðlögun er nauðsynleg. Hún gerir líf okkar auðveldara og skapar mörg tækifæri. Og hún er alls ekki aðeins neikvæð og dapurleg. Það fer eftir sérhverjum manni hvort aðlögun hans beri jákvæðan árangur eða neikvæðan. Hins vegar óska ég þess að Íslendingar skilji að alögun varði persónuleika viðkomandi manneskju og hún gengur ekki eins og að skipta spólu í myndbandstæki. Því óska þess sérstaklega að fólk í stjórnunarstöðum í samfélaginu sýni tillitssemi þegar “aðlögun“ er til umfjöllunar.

(Prestur innflytjenda, 2. ágúst 2006 Mbl.)

css.php