Hvert stefnar heilagi andinn?

Flutt 30. águsta 2009 12. sunnudaginn eftir þrenningarhátíð í Háteigskirkju

Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.
Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.
En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“(Matt. 12:31-37)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Málsháttur segir: ,,Það er auðveldara að elska alheiminn en að elska náunga minn”. Að vissu leyti er þetta satt og rétt. Við eigum auðvelt með að segja “já” þegar einhver skipar okkur : “Elskið alheiminn”, þar sem það er aðeins hugmynd, sem ekki er svo tengd okkar raunverulegu lífi. En okkur gæti þótt erfiðara að segja “já”, ef einhver skipar okkur: “Elskið náunga ykkar, ég á við Magnús, Óla og Sigrúnu”, þar sem þetta fólk hefur sitt eigið nafn og er því raunverulegra fyrir okkur, en það getur verið að okkur kunni ekkert endilega að finnast sá raunveruleiki fallegur og skemmtilegur.

Sama má segja um Guð. Guð er ákveðinn Guð fyrir okkur, sem er Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, en guð gæti einnig aðeins verið abstrakt hugtak sem þýðir almennt ákveðinn æðri mátt fyrir margt fólk sem ekki játar kristna trú. Ég þekki marga sem segjast trúa ekki á Guð í kristni en trúa á guði í heimspekilegum hugmyndum.

Margir hafa annað að segja um Jesú Krist. Jesús er bæði maður sem er mikilvægur í mannkynssögunni en jafnframt lifandi Kristur fyrir þá sem lifa í kristni. En fyrir aðra er hann aðeins maður í sögunni. Þeir segja: ,,Ég kann vel við Jesú. Hann segir ýmislegt gott en ég trúi ekki að hann sé Kristur”. Gagnstætt því þegar um Guð er að ræða, sjá sumir aðeins Jesú út frá sagnfræðilegu sjónarmiði en ekkert trúarlegt eða heimspekilegt samhengi Jesú við Guð.

2.
Það er alls ekki slæmt að fólk hafi í huga sínum heimspekilegan guð eða Jesú sem mann í sögunni. Sérhver hefur jú rétt til að pæla í slíkum guði og Jesú. En þá megum við í kristinni trú segja, þegar fólk upplifir aðeins hugmyndafræðilegan guð og sagnfræðilegan Jesú, að viðkomandi vanti eða upplifi ekki heilagan anda. Það er vegna þess að heilagi andinn er það sem gerir hugmyndafræði um guð eða þekkingu um Jesú að lifandi krafti og trú fyrir okkur.

En hvað er heilagur andi? Heilagur andi er líklega það sem er hvað erfiðast fyrir okkur að útskýra fyrir öðrum, þótt við játum alltaf í messu: ,,Ég trúi á heilagan anda….”! Margir prestar eða guðfræðingar, þ.á.m. prestar í öðrum kirkjudeildum líka, gefa okkur ýmsa mismunandi skilgreiningingar um heilagan anda. En skoðum nokkur einkenni hins heilaga anda sem eru óumdeild.

Í fyrsta lagi, er hinn heilagi andi hjálpari okkar samkvæmt Jóhannesarguðspjallinu. ,,Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á”. (Jn. 16:13)

Í öðru lagi, gefur hinn heilagi andi mönnum kraft til að tala öðrum tungum eins og við þekkjum vel í Postulasögunni.

Í þriðja lagi, gefur hann mönnum kraft til að standa upp og vitna um Guð. Postulasagan segir okkur frá því hvernig Pétur eða Stefán boðuðu fagnaðarerindið Jesú með krafti hins heilaga anda.

Í fjórða og síðasta lagi, mikilvæga trúarjátningin okkar lútherskrar kirkju, Ágsborgarjátning, segir um verk heilaga andans eins og eftirfarandi : “Til þess vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum, því að fyrir orðið og sakramentin eins og tæki er gefinn heilagur andi, sem kemur til leiðar trúinni, þar sem og þegar Guði þóknast, …”. (Ágsborgarjátning 5.gr.)

Ef við tökum saman ofangreindar lýsingar um hinn heilaga anda, megum við segja að: heilagi andinn vinnur á og inn í okkur og vekur trú í okkur og lætur okkur standa upp og vitna Jesú Krist.

Þegar heilagi andinn vinnur með okkur, hugmyndafræði og þekkingu um Guð verður að trú okkar, og skilningur okkar á Jesú að iðrun og gleði um fyrirgefningu. Og þannig breytumst við frá áhorfendum í trúmálum í boðandi og þjónandi menn.

M.ö.o. gerir hinn heilagi andi “ímynd Guðs”, sem hefur verið með okkur mönnum og er inn í okkur frá dögum sköpunarverks Guðs, virka og gerir þannig tilvist okkar jákvæða og skapandi. Með hjálp hins heilaga anda verðum við að “mönnum sem hefur verið fyrirgefið” í augum Guðs og göngum á ný í von og gleði.

3.
Guðspjall dagsins segir: “ Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda”. (Matt. 12:32)

Þetta virðist vera frekar hörð viðvörunarorð. En af hverju er guðlast gegn heilögum anda ekki fyrirgefið? Og hvað það þýðir að mæla gegn heilögum anda í raun?

Um daginn fékk ég símtal frá útlöndum. Það var kona frá Eystrasaltsríki sem hringdi í mig. Hún bjó á Íslandi nokkur ár áður en fór til heimalands sins rétt áður en kreppan skall á. Hún var hágrátandi og sagði mér að hún hefði misst föður sinn fyrst og um leið móður. Hún spurði mig einar einfaldrar spurningar: “Af hverju lætur Guð þetta gerast?” Því miður er þetta sú spurning sem fæstir prestar hafa svar við. Konan hélt áfram hálftíma að tala við mig um hve rangt þetta væri af Guði. Hún talaði um svik og miskunnarleysi hjá Guði, þar til hún loksins róaðist.

Hún mælti víst gegn Guði en á hún skilið refsingu vegna þess? Ég held það ekki. Viðbrögð konunnar voru mjög eðlileg og raunar ekkert annað en tjáning á elsku hennar og söknuður til látinna foreldra sinna. Að efast um tilvist Guðs, að kvarta yfir óréttlæti sem lítur út fyrir eins og Guð læti það vera, eða jafnvel að reiðast Guði er, ég þori að segja það, hluti af trúarlífi okkar. Það á sér stað þegar trúin er í nánum tengslum við hversdagslíf okkar.

Það er fólk sem trúir ekki á Guð. Sumir hafa ekki nægilegan áhuga á tilvist Guðs. Sumir geta verið í erfiðum aðstæðum til að leggja traust sitt á Guð eins og konan í Eystrasaltsríkinu. Sumir neita virkilega tilvist Guðs. Fleiri en það leggja trú sína á Guð eftir geðþótta sínum og hentugleika. Einnig er margt fólk til í heiminum ennþá sem þekkir ekki Jesú. En þeir eiga allir von um að verða fyrirgefið. Af hverju? Af því að Jesús biður Guði um fyrirgefningu handa þeim: “Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra”.(Lk.23:34) Vegna þessarar bænar Jesú er enn rými fyrir fyrirgefningu fyrir þá sem trúa ekki á Guð eða mæla gegn Jesú.

En af hverju verður guðlast gegn heilögum anda ekki fyrirgefið? Eins og við skoðuðum áðan, er heilagur andi sá kraftur og tilvera sem gefur okkur trú og von, viðurkenning um synd okkar, iðrun og um leið gleði um að fá fyrirgefningu.

Og hvað þýðir það að vera fyrirgefið af Guði? Það þýðir að við fáum til baka ímynd Guðs inni í okkur sem var týnd vegna synda okkar. Og þannig byrjum við að ganga aftur með von í skapandi tilveru.

4.
Að mæla gegn heilögum anda er að neita verki heilaga andans, sem er trú, iðrun, fyrirgefning, von eða afla á ný ímyndar Guðs. Ef fólk neitar öllu þessu, væri ekkert jákvætt eftir fyrir það. Fólk lifir lífi sínu aðeins í örvæntingu og kvörtunum, hefur lélega sjálfsmynd, á enga vini eða kærleikssamband við náunga sína, sakar sífellt samfélag um aðgerðarleysi en án þess að leggja nokkuð á sig til að breyta einhverju til hins betra.

Svona fólk eða maður gæti verið dæmigerð ímynd þess sem mælir gegn verki hins heilaga andans. Hvernig lýsum við slíkum manni? Er það ekki besta lýsing að segja ,,yfirgefinn maður af Guði”? Slíkt líf er ekkert annað en dómurinn og refsingin. Þannig ef maður mælir stöðugt gegn heilögum anda og í ákveðnum tilgangi, er maður nú þegar dæmdur á jörðinni. Og í komandi heimi, sem er Guðs ríkið, og það er raunar tengt við jarðneskt líf okkar en alls ekki aðskilið frá því, verður manni heldur ekki fyrirgefið.

Að sjálfsögðu er fólk eins og ég hef lýst núna, sem er algjör neikvætt út í allt í lífinu, aðeins eins konar tákn og það mun varla vera slíkt neikvætt fólk til í raun. En hvað um suma hluta af hinni neikvæðu lýsingu? Fyrir utan neikvætt viðhorf og vonleysi, sem eru eðlileg viðbrögð eftir óhamingjusama uppákomu, getur það ekki verið að við festumst í neikvæðri gildru þessara viðbragða jafnvel ómeðvitað? Erum við ekki bara orðin vonlaus um framtíð okkar? Erum við ekki orðin of neikvæð út í samfélagi okkar? Erum við þá að ekki telja virði lífs okkar of lítið? Erum við ekki að álíta Guð vera sambandlaus við okkur eða Jesú vera engan vin? Veltum málinu fyrir okkur öðru hverju.

Það skiptir engu máli hver ástæðan er: bankahrunið, kreppan, atvinnuleysi, fjölskyldumissir, ástarsorg. Það er eðlilegt og í lagi að við erum þung og langt niðri eftir óeftirsóknarverðir atburðir gerast. Málið er hvort við festumst inn í neikvæðum krafti og reynum að réttlæta það með því að þykjast að hafa upplifað allt slæmt í heiminum?

Ef einhver ykkar er núna með fasta neikvæða ímynd um líf sitt og um heiminn, endilega bið ég um að skoða einu sinni enn í kringum sjálft sig. Er allt svo ómögulegt í alvöru? Var það enginn eftirminnilegur dagur eða stund í lífinu þínu? Það hlýtur að vera góð og jákvæð minning í lífinu. Ekki gleyma góðri minningu, ekki líta lítið á gleði og hlátur í lífinu þínu. Því að það er sönnun þess að heilagur andi var með þér og að þú átt ímynd Guðs inni í þér.

Ef við teljum það erfitt að víkja úr hinum neikvæða heimi, fáum þá aðstoð heilags anda. Hverjar svo sem kringumstæður okkar eru, hikum ekki við að gera það. Ef okkur finnst erfitt að trúa á Guð eða heilaga andann rétt núna, þurfum við ekki endilega að trúa. Látum okkur a.m.k. bregðast við boði Guðs um hjálp, með því að óska eftir það hjálp. Guð spyr sífellt hvort við þurfum aðstoð hans. Það eitt fer eftir ákvörðun okkar sjálfra hvort við svörum með “jái” eða “nei” um að þiggja boð Guðs. Óskum eftir aðstoð heilags anda. En munum eitt: aðstoð frá Guði er ekki það sama og kraftverk. Í flestum tilfellum er aðstoð Guðs raunsæ og kemur til okkar á skynsamlegan hátt. Því annars gæti hún týnst fyrir augum okkar manna. Aðstoð gæti komið gegnum náunga okkar. Fáum aðstoð frá vinum okkar og fólki sem er tilbúið að rétta okkur hjálparhönd. Reynum að geyma hjörtu okkar og huga opin. Hinn heilagi andi starfar alls staðar og alla tíð í raunveruleikanum okkar, en aðeins ef við óskum og viljum þiggja aðstoð hans.

(Takið postulalega blessun.)

Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Amen.

 

css.php