Hvað er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar orðið kynþáttafordómar ber á góma? Það geta verið þekkt dæmi úr sögunni um mismunum fólks eftir kynþáttum eins og t.d. í Bandaríkjunum og Suður-Afríku eða það geta verið nýnasistar á Norðurlöndum og í Evrópu. Flestir eru sammála um að kynþáttafordómar séu óæskilegir og slæmir og fæstir vilja tengja þá við sjálfan sig og sitt daglega líf. Kynþáttafordómar eru í hugum flestra fjarlægt fyrirbrigði sem jafnvel koma þeim ekki beinlínis við. En er það rétt? Mig langar hér til þess að hugleiða málið og benda á leiðir sem einstaklingar geta notað til þess að berjast við kynþáttafordóma.
1. Að þekkja kynþáttafordóma
Kynþáttafordómar eru fordómar vegna ákveðins útlits kynþáttar sem leiðir af sér mismunun þeirra sem til hans teljast í samfélaginu. Kynþættir eru tilraun til að flokka fólk eftir líkamlegum einkennum þeirra eins og húðlit og byggja ekki á vísindalegum grunni. Við mannfólkið erum öll af sama stofni, “homo-sapiens”. Ef við skiljum orðið kynþáttafordómar bókstaflega, þá falla orð eins og t.d. “Gyðingahatur” eða “arabahatur” ekki undir það, því þau eiga við annars konar flokkun fólks, eftir trúarbrögðum, tungumálum eða öðrum menningarlegum þáttum, þ.e.a.s. ,,þjóð”/ ,,þjóðarbrot” eða ,,nation”/ ,,ethnicity”. En í raun finnst okkur slíkt hatur einnig tilheyra kynþáttafordómum. Þess vegna þurfum við í fyrsta lagi, þegar við notum orðið í samræðum, að vera viss um að við séum að nota í sömu merkingu.
Til þess að taka á málum verðum við oft að sannfærast um að þau komi okkur við, finna fyrir ákveðinni nálægð við þau í daglegu lífi okkar. Ef ég nota víðari skilgreiningu á orðinu kynþáttafordómar, t.d. eins og: ,,Kynþáttafordómar eru fordómar á útliti þeirra manna og kvenna, tungumáli þeirra, menningu og trúarbrögðum sem greina sig frá hinum hefðbundna, íslenska ,,meðal-Jóni eða Jónu” , þá lítur málið að öllum líkindum öðruvísi út og kemur Íslendingum því við.
2. Að þekkja birtingarform fordóma
Fólk álítur oft að kynþáttafordómar birtist einna helst með sýnilegu og ógeðfelldu ofbeldi. Það eru vissulega alltof mörg dæmi um slíkt en fordómar birtast einnig með öðrum hætti. Við getum sett þá í tvö flokka, annars vegar sýnilega fordóma og hins vegar fordóma sem oft eru ósýnilegir.
Sýnilegir fordómar
Ofbeldisfull, líkamleg eða andleg gjörð, eins og t.d. líkamsmeiðingar eða ljótt orðbragð.
Opinber yfirlýsing á andúð gagnvart fólki af erlendum uppruna, t.d. í fjölmiðlum.
Órökstudd mismunun í stjórnsýslu og löggjöf.
Ósýnilegir fordómar
Öðruvísi framkoma í garð fólks af erlendum uppruna sem meðvituð eða jafnvel ómeðvituð.
Um sýnilega fordóma og viðhorf yfirlýstra kynþáttaformælenda ætla ég ekki að fjalla um hér. Þau atriði sem ég vil hér gera að umtalsefni eru viðhorf og gjörðir Íslendinga gagnvart fólki af erlendum uppruna og býr og lifir á Íslandi. Undir öðruvísi framkomu Íslendinga, meðvitaða og ómeðvitaða, gagnvart fólki sem er af erlendu bergi brotið falla til dæmis:
að meta ekki starfsárangur útlendinga til jafns á við Íslendinga
að gefa útlendingum ekki jöfn eða sömu tækifæri og Íslendingum
að veita útlendingum ekki jafngóða þjónustu
að pirrast yfir málfari og framburði útlendinga á íslensku
að óttast samræður við útlendinga
að finnast skoðanir útlendinga ekki jafnréttháar
Allt er þetta veruleiki sem fólk af erlendum uppruna upplifir á Íslandi alltof oft. Ef við hins vegar erum vakandi um þessi atriði og önnur sambærileg þá getum við breytt veruleikanum, smám saman. Stundum eru fordómar sem að þessum atriðum víkja meðvitaðir en stundum eru þeir á gráu svæði fordóma og tillitsleysis.
3. Að viðurkenna fordóma fyrir það sem þeir standa
Ég tel að fólk geti aðeins losað sig við sína fordóma að það taki eftir þeim og viðurkennir fyrir hvað þeir standa. Ákveðnir kynþáttaformælendur munu vera undantekning en flestir vilja vera fordómalausir. Málið er hins vegar að oft erum við ekki meðvituð um fordóma okkar. Þess vegna er fræðsla um fordóma, líkt og sú sem að Alþjóðahúsið veitir, mjög mikilvæg og ég vona að sem flest fyrirtæki, skólar og félög fái að njóta hennar.
Það er líka til önnur mjög hagnýt aðferð til þess að berjast við fordóma, ekki síst fordómana sem búa í manns eigin brjósti. Það er einfaldlega með því að vekja athygli á og spyrja nánar út í málið, t.d. þegar við verðum vör við atferli eða skoðanir sem virðist mjög fordómafullar, hvort að það eða þær séu réttlætanlegar eða ekki. Þetta er aðferð sem Femínistafélag Íslands notar í baráttu sinni um jafnrétti kynjanna og ég dáist mikið að. Í hvert einasta skipti sem femínistar rekast á misvægi eða misrétti vekja þeir á því athygli og spyrja, réttlætanlegt eða ekki? Mér finnst sem að sama aðferð hljóti að nýtast í baráttunni við kynþáttafordóma. Það er oft erfitt að sanna beinlínis að um fordóma sé að ræða en með þessari aðferð liggur sönnunarbyrðin ekki hjá þeim sem verður fyrir fordómunum en hann hefur hins vegar rétt á að spyrja kurteisislega hvort að að hann njóti sannmælis og jafnréttis á við aðra Íslendinga. Við nánari skoðun mun síðan væntanlega koma í ljós hvort að atferli eða orðfærði verði færð undir kynþáttafordóma eða ekki. Þögnin hjálpar engum.
4. Að hafa hugrekki til þess að fyrirgefa og vera fyrirgefið
Ég trúi því að við getum, með því að fræðast um það sem okkur kann að virðast framandi, hugsað um það og viðurkennt fordóma sem við kunnum að hafa aflað okkur, barist gegn fordómum og gert umræðuna um þá opnari. En til þess þurfum við að losna við það sem ég vil kalla “fordóma gagnvart fordómum” sem t.d. birtast í alhæfingum eins og;: ,,Allir þeir sem hafa fordóma eru rasistar,” eða ,,þeir sem benda á fordóma hérlendis eru óvinir Íslendinga.” Slíkar fullyrðingar útiloka möguleika okkar á að bæta samfélagið. Það að viðurkenna fordóma sína og ræða þá krefst hugrekkis og reynir ekki aðeins á umburðarlyndið og hæfileikann að geta sett sig í spor annarra heldur einnig á fyrirgefninguna. Sá sem getur beðist fyrirgefningar og sá sem getur fyrirgefið geta búið til frjóan jarðveg þar sem sá má fræjum sem geta borið ríkulegan ávöxt, þá fyrst er hægt að gera aðra tilraun til þess að bæta samskiptin, reyna aftur og gera betur. Við þurfum öll að taka okkur á.
(Toshiki Toma; stjórnmálafræðingur og prestur innflytjenda)