1.
Komið þið sæl.
Í þessari ræðu ætla ég að einbeita mér að eftirfarandi spurningu: „Hvernig eigum við að berjast gegn kynþáttamisrétti og fordómum á Íslandi frá degi til dags?” Sú barátta getur verið jafnt fyrir einstaklinga, kirkju eða aðra hópa. Rasismi byggist fyrst og fremst á hugmyndum um að einn kynstofn sé æðri öðrum kynstofnum. Ef manneskja vill trúa því að hvítir menn séu duglegri eða meira virði sem manneskjur en fólk með litaða húð, þá er hún með kynþáttafordóma.
Í öðru lagi vísar hugtakið „rasismi“ til þess þegar manneskjur mismuna fólki sem tilheyrir öðru þjóðarbroti en fellur að þeirra eigin menningarheimi. „Gyðingahatur“ er t.d. mismunun vegna þjóðernislegs minnihlutahóps og menningar þess, en ekki vegna kynstofns. Rasismi eða kynþáttamisrétti birtist þannig annars vegar sem andúð á öðrum kynstofnum en sínum eigin og hins vegar sem neikvætt álit gagnavart fólki sem tilheyrir öðrum menningarheimi.
En það er einnig annað atriði sem við þurfum að huga að en það eru birtingarmyndir mismununar og fordóma. Önnur er sýnileg og meðvituð mismunun og fordómar en hin er dulin og ómeðvituð mismunun og fordómar.
Undir sýnilega og meðvitaða mismunun má flokka þá sem hika ekki við að lýsa því yfir að þeir séu rasistar. Þeir trúa því að þeir geti rökstutt málflutning sinn og framkomu. Rasistar telja að ofbeldi, bæði líkamlegt og andlegt, sé réttlætanlegt.
2.
Skoðum tilfelli þar sem um slíkan rasisma er að ræða. Sem betur fer er skipulagður hópur rasista ekki virkur á Íslandi, ólíkt stóru löndunum í Vestur-Evrópu. Íslenskur almenningur líður sjaldnast ofbeldisfullar gjörðir sem tengjast kynþáttafordómum, en þær eiga sér samt endrum og eins stað hér á landi. Það er hins vegar tilhneiging hjá nokkrum dagblöðum að taka upp ummæli rasista á hneykslanlegan hátt óþarflega.
Þegar við sjáum slíka umfjöllun, þurfum við að gæta þess að hneykslast ekki á henni. Það gleður aðeins rasistana sem í raun hafa ekkert vald. Það er oftast betra að benda á rangfærslur í málflutningi rasistanna og sýna fram á rökleysur þeirra en ekki með því að svara þeim beint, heldur með því að tjá okkur um þær á opinberum vettvangi með okkar eigin frumkvæði.
Það er mín skoðun að íslenskt samfélag eigi að halda áfram á þeirri braut sem það hefur verið á, en það þarf engu að síður að hafa ávallt í huga nokkur atriði. Ég ætla að telja hér um þrjú en þau eru fleiri. Fyrsta atriðið varðar aðgengi skólabarna að rasistahópum á netinu. Það getur verið erfitt að hafa eftirlit með þessum síðum, eins og öðrum óæskilegum síðum líkt og klámsíðum, sem við viljum ekki að börnin okkar skoði. Börn eru ekki fullmótuð frekar en dómgreind þeirra og þau eru áhrifagjörn. Lífsstíll rasista getur því í þeirra augum litið út fyrir að vera framandi og áhugaverður. Við verðum því að hjálpa börnunum okkar að greina rétt frá röngu og falla ekki í þá freistingu.
Annað atriðið fjallar einnig um skólabörn. Samkvæmt rannsókn sem Háskólinn á Akureyri gerði fyrir tveimur árum eru meiri líkur á að börn verði fyrir einelti í skólanum ef foreldrar þeirra eru erlendir að uppruna. Í rannsókninni kom í ljós að 16% barna sem áttu foreldra sem báðir voru útlenskir höfðu lent í einelti, 12% barna þar sem annað foreldrið var af erlendum uppruna en 8% ef báðir foreldrar voru íslenskir. Þetta sýnir svart á hvítu að einelti á meðal barna tengist uppruna þeirra. Þetta varðar ekki beinlínis rasisma en þetta varðar börn og er málefni sem við verðum að ræða almennilega á næstunni, og því bendi ég á það hér.
Þriðja atriðið er um ungt fólk, fólk sem er eldra en skólabörn. Íslenskt samfélag er vel menntað. Menntun þess er jöfn og jafnvel hærri í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir. Flest íslensk ungmenni ganga í framhaldsskóla og fara í nám á háskólastigi. Það er því miður ekki veruleikinn víða erlendis og í öðrum löndum hafa þeir sem flosnað hafa upp úr skóla eða vinnu tekið þátt í mótun rasistahópa og stutt rasistaflokka. En umhverfið hér á landi hefur breyst verulega undanfarin tvö ár eftir hrunið og margt ungt fólk er atvinnulaust og er óánægt með lífskjör sín eins og margir aðrir. Við þurfum að fylgjast vel með aðstæðum þessa unga fólks svo að þær verði ekki til þess að veita fólkinu tækifæri til þess að aðhyllast vondar hugmyndir á borð við rasisma.
3.
Nú vil ég tala um ómeðvitaða fordóma og mismunun og dulda. Tíminn er takmarkaður og því ætla ég aðeins segja frá tveimur dæmum um kerfisbundna mismunun og fordóma eins og þær birtast í dag. Það er mitt mat að þetta varði helst mismunun eftir uppruna fólks eða þjóðernislegum minnihlutahópum í veruleikanum á Íslandi í dag. Kerfisbundin mismun er sýnileg en jafnframt dulin. Hún er sýnileg í opinbera kerfinu og meðferðinni þar en birtist ekki skýrt sem mismunun eða fordómar. Hún klæðist ýmsum dulargervum eins og í slagorðinu: “Hagsmunir þjóðarinnar”.
Eftir bankahrunið þurfti íslenska ríkið að einbeita sér að því að vernda hagsmuni Íslendinga, fyrst og fremst, sem er skiljanlegt að sjálfsögðu. En hrunið hafði einnig margvísleg áhrif á útlendinga, bæði réttindi þeirra og þjónustu við innflytjendur. Málið snýst um línuna sem aðgreinir hvort slagorðið um hagsmuni þjóðarinnar sé réttlætanlegt eða hvort það gæti fallið undir brot á mannréttindum útlendinga sem eru búsettir á Íslandi.
Ég skal taka dæmi. Samkvæmt fréttaskýringu Morgunblaðsins 28. febrúar sl. var hlutfall atvinnuleysis í janúar 8,5 prósent á landsvísu. En þegar nánar var gáð þá reyndist atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á landinu 15.5 prósent á sama tíma. Í fréttaskýringunni var sagt frá því að erlendu starfsfólki var sagt fyrst upp og Íslendingar ráðnir í kjölfar þess. Spurningin er hvort slík starfsmannaskipti eftir þjóðerni séu réttlætanleg?
Ef staða er laus og Íslendingur og útlendingur, sem ekki er búsettur á Íslandi sækir um stöðuna, þá er mjög skiljanlegt að hinn íslenski umsækjandi fái hana. En ef útlendingur er þegar búsettur á Íslandi og á sitt líf hér, þá vantar hann vinnu alveg eins og aðrir. Það er algjör misskilningur að hugsa eins og innflytjendur gætu farið til heimalands sins bara hvenær sem er. Fyrir innflytjendur sem eru búnir að búsetjast sig hér er Ísland heima. Að mínu mati er það rétt að segja starfsmannaskipti af þessu tagi er mismunun á grundvelli ríkisfangs fólks.
Ég skal taka annað dæmi. Alþingismaður nokkur sagði frá eftirfarandi skoðun sinni í umræðu á Alþingi 22. febrúar sl. : “Er það rétt að íslenskir skattgreiðendur eiga að greiða fyrir nám erlendra nemenda hvaðan sem þeir koma?” Þetta hljómar kannski skiljanlegt og skynsamlegt þegar þið heyrið þetta í fyrsta skipti. En í rauninni getur erlendur nemi haft verið búsettur hér nokkuð lengi og greitt skatta hér eins og Íslendingar. Erlendur nemi er ekki endilega skiptinemi. Hann getur t.d. verið innflytjandi sem hefur dvalið hér í fjögur til fimm ár, ekki enn verið búinn að öðlast íslenskan ríkisborgararétt, en verið í háskólanámi. Ég er ekki viss hvort þessi tiltekni alþingismaður sé meðvitaður um þetta atriði eða ekki, en hann skorti á skilning á því hvort sem er.
Það sem einkennir þessi tvö ofangreind dæmi er að hin beina andúð gegn útlendingum sést ekki en hins vegar er grunnhugmyndin engu að síður þessi: “Útlendingar eru byrði á Íslendingum” eða “Innflytjendur eiga að snúast heimalands síns ef þeim liður illa hér”. Er slíkt sjónarmið réttlætanlegt? Er slík hugsjón sátt við hugtak um mannréttindi? Er slíkt viðhorf æskilegt fyrir hagsmuni Íslands í framtíðinni?
Það er fleira sem ég gæti bent á í þessari ræðu eins og t.d. þjónusta Útlendingastofnunar sem fjölmargir innflytjendur kvarta yfir af því að þeir skynja óvirðingu og fyrirlitningu til sín þar, eða fordómar í garð múslima. En ég verð að bíða eftir öðru tækifæri til þess að segja ykkur frá því.
4.
Að lokum langar mig að taka það skýrt fram, til þess að forðast misskilning, að það að tala um mismunun og fordóma í samfélaginu er ekki það sama og að “skíta út Íslendinga“ eða “tala illa um Ísland.“ Ég skora núna á hverjum degi á Íslendinga að aðstoða Japani í erfiðleikum þeirra vegna jarðskjálftanna. Ég fæ mikil og góð viðbrögð, samúð og samstöðu frá fólki á Íslandi og ég er mjög þakklátur fyrir það. Ég ber mikla virðingu fyrir Íslendingum og mér liður vel hérlendis.
En það er eitt, og baráttan gegn mismunun og fordómum er annað. Baráttan gegn misrétti snýst ekki um að hvort manneskja sé góð eða vond, eða hvort Ísland sé betri þjóð en aðrar þjóðir eða ekki. Hún snýst um ófullkomleika manna og mikilvægi þess að berjast gegn misrétti óháð því hvar sem við eigum heima. Að viðurkenna þetta í huga okkar og hjörtum skýrt er ef til vill fyrsta skref í baráttunni gegn kynþáttamisrétti.
Kærar þakkir.
(Prestur innflytjenda; -úr örþingi kirkjunnar “Kynþáttafordómar: Hvar erum við stödd?”-
21. mars 2011 í Neskirkju)