Í næstu viku, þann 10. desember nk., er alþjóðlegi mannréttindadagurinn haldinn hátíðlegur. Í ár eru 57 ár liðin frá því Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Á sama tíma standa yfir á Alþingi umræður um fjárlagafrumvarp ársins 2006. Margir Íslendingar og mannréttindastofnanir í Evrópu fylgjast með furðu með þróuninni hér á landi; meðan aðrar mannréttindastofnanir undirbúa hátíðahöld vegna mannréttindadagsins, blasir lokun við Mannréttindaskrifstofu Íslands vegna þess að ekki fæst nægt fé til starfseminnar. Þetta er dapurlegt ástand. Vil ég því hvetja ég alla þingmenn til að beita sér fyrir því að beinn fjárstuðningur til Mannréttindaskrifstofu Íslands verði tryggður en skrifstofan hefur um árabil unnið að eflingu mannréttinda hér á landi, – þar til fyrir skömmu – með opinberum stuðningi.
Um daginn var haldin ráðstefna í Ráðhúsi Reykjavikur undir yfirskriftinni ,,Hvað getur ungt fólk lagt að mörkum til friðar- og mannréttinda á 21. öldinni sem einstaklingar?“ Soka-gakkai (Búddistafélagið) hafði frumkvæði að skipulagningu ráðstefnunnar, í samstarfi við UNICEF, Rauða krossinn o.fl. Ráðstefnan var fjölmenn og mér fannst stórkostlegt að sjá hversu virkan áhuga ungt fólk hefur á mannréttinda- og friðarmálum og hversu áfjáð það er í að að leggja sitt af mörkum. Ljóst er að framtíð þjóðarinnar er björt ef hún er falin þessu kraftmikla hugsjónafólki.
Ég fékk tækifæri til að segja nokkur orð sem gamlamenni, svo ég deildi speki minni með ungmennunum. Hún er sú að mannréttindi eru ekki eins fjarlæg og fræðileg og margir halda, heldur eru þau áþreifanleg og persónuleg. Mannréttindayfirlýsingin S.þ. er kannski tákn um háleit markmið en birting mannréttindamála er í raun oftast mjög áþreifanleg og persónuleg. Þau varða mig eða þig. Við þurfum að vera vakandi og láta mannréttindamál okkur varða í daglegu lífi okkar.
Í þessu samhengi er það áþreifanlegt mannréttindamál dagsins hvort MRSÍ getur haldið áfram mikilvægri starfsemi sinni eða ekki. Í Vestur-Evrópu er engin þjóð sem ekki heldur úti sjálfstæðri mannréttindastofnun. Fyrir smáþjóðfélag eins og Ísland, er bersýnilega nauðsynlegt að ríkið styðji Mannréttindaskrifstofuna fjárhagslega án þess þó að vilja hafa áhrif á starf hennar. Ef MRSÍ þarf að leggja upp laupana verður engin sjálfstæð mannréttindastofnun hérlendis er starfar að mannréttindum á heildstæðan hátt. Hvert verður svarið þegar komandi kynslóð spyr:,,Af hverju eigum við enga sjálfstæða mannréttindastofnun á Íslandi?”.
Ég treysti þingheimi til að koma í veg fyrir að Mannréttindskrifstofunni verði lokað. Jafnframt vil ég biðja alla í þjóðfélaginu um að fylgjast með fjárlagafrumvarpinu og framtíð MRSÍ en starfsemi hennar snýst um að vernda réttindi OKKAR. Sérstaklega vil ég hvetja ungt fólk til að skoða málið og taka þátt í að efla virðingu fyrir mannréttindum á Íslandi. Þetta er þjóðþrifamál og hvert og eitt ykkar getur lagt sitt mörkum.
(Prestur innflytjenda, 2. desember 2005 Mbl.)