Hugleiðing um stöðu kirkjunnar í fjölmenningarsamfélagi

Samræðan um stöðu kirkjunnar í fjölmenningarsamfélagi á ekki aðeins að eiga sér stað á milli mismunandi trúarbragða heldur er það einnig mikilvægt að kristnar kirkjur víðs í heiminum ræði saman og eigi samskipti byggð á kristilegum hugmyndum.

Ólíkt umhverfi kirknaÉg heimsótti Japan, heimaland mitt, í fyrsta sinn um jólin í 13 ár og vakti heimsóknin mig til umhugsunar um stöðu kirkjunnar annars vegar í Japan og hins vegar á Íslandi. Kristnir menn eru minnihlutahópur í Japan og aðeins eitt prósent af íbúafjölda landsins. Umhverfi japönsku kirkjunnar er gjörólíkt þeirrar íslensku.

Sem dæmi um það má nefna að allur þorri japönsku þjóðarinnar heldur hvorki jól né páska hátíðleg, og kristnu hátíðirnar eru þar aðeins venjulegir vinnudagar. Þá fær kirkjan heldur ekki styrk til starfsemi sinnar frá ríkinu og hvílir rekstur hennar því algjörlega á söfnuðinum.

Það þykir sérstakt að vera kristinn maður í Japan og sjálfsmynd hins trúaða er oftar en ekki skýr og sterk. Söfnuðirnir eru flestir litlir og sem dæmi má nefna að lútherski söfnuðurinn sem ég tilheyri í Japan telur aðeins 40-50 manns.

Hver og einn leggur til safnarins um tíund af tekjum sínum til reksturs safnaðarins og þrátt fyrir að uppskera oft fyrirlitningu eða kaldhæðið viðhorf þá eru japanskir, kristnir menn óhræddir við að boða trú sína.

Samræða við önnur trúarbrögð er hins vegar, ef til vill af ofangreindum ástæðum, ekki ofarlega á baugi í japanskri kirkju og lítt vinsælt ræðuefni.

Ég þarf ekki að lýsa umhverfi íslenskrar kirkjunnar þar sem flestum eru það kunnugt en með þessum samanburði er ég alls ekki að segja að önnur kirkjan sé eða hafi það betra en hin heldur trúi ég því að þær geti lært af aðstæðum hvor annarrar.

Ábyrgð þjóðkirkjunnar  Ég bjó sem kristinn maður í Japan í 14 ár og hef nú verið það í önnur 13 ár á Íslandi. Mér finnst að mörgu lelyti erfiðara að halda úti kirkjustarfi í Japan en á Íslandi en hins vegar þykir mér auðveldara að halda við og iðka kristna trú í Japan en á Íslandi. En hvers vegna skyldi það vera?

Það eru forréttindi að tilheyra trúa sem mikill meirihluti þjóðarinnar játar en ábyrgð íslensku þjóðkirkjunnar eru einmitt þess vegna mikil. Í Japan er trú hvers og eins fyrst og fremt einkamál einstaklingsins sem getur þá túlkað líf sitt og heiminn samkvæmt trúarlegu viðhorfi sínu, hvert sem það er.

Kirkjan á Íslandi ber meiri samfélagslega ábyrgð og hefur meiri áhrif vegna þess hversu fjölmenn hún er og einmitt vegna þess þarf hún að fara vel með vald sitt og áhrif. Hún þarf t.d. þegar hún boðar fagnaðarerindið að huga að þeirri staðreynd að aðrir trúarhópar eru í miklum minnihluta í íslensku samfélagi. Það að boða eingöngu fagnarerindið getur verið ógnun við þá hópa og þess vegna tel ég að skilja verði á milli “trúboðs” sem er þá samræða á milli trúarbragða og kærleiksþjónustu kirkjunnar, þ.e. sú köllun að þjóna fólki án tillits til þess hvort það sé kristið eða þurfi að verða kristið.

Hin mikla útbreiðsla kristninnar á Íslandi leggur einnig þá ábyrgð á herðar kirkjunni að fylgjast vel með þróun samfélagsins og bregðast á viðeigandi þátt við nýjum verkefnum númtímalífs, eins og breyttu fjölskyldumynstri, opinberun samkynhneigðar eða umhverfisvernd. Kirkjan á að velta öllum málum fyrir sér og segja frá viðhorfi sínu. Hin japanska kirkja ber að sjálfssögðu sömu ábyrgð en ekki eins ríka þar sem hún er í miklum minnihluta.

Framtíðarsýn kirkjunnar

Eins og fyrr greinir frá, þá er tilgangur minn í þessari hugleiðingu hvorki sá að hrósa þjóðkirkjunni né gagnrýna heldur einfaldlega að reyna að skýra stöðu hennar í samanburði við aðrar kristnar kirkjur, t.d. þá sem ég þekki best, í Japan.

Ég trúi því að kirkjurnar geti lært ýmislegt hvor af annarri. Með því að skoða kristni í Japan getur íslenska kirkjan velt fyrir sér hver sé hinn raunverulegi auður kristinnar trúar. Þjóðkirkjan hér á djúpar rætur og saga hennar er samofin þúsund ára sögu landsins en getur verið að það gleymist stundum hversu dýrmæt trúin á Jesú Kikrst er í raun og veru? Trúin á hann getur eytt fávisku manna og fordómum og óskynsamlegum,  menningar- og samfélagslegum hefðum. Hún gefur frelsi til þess að trúa á það sem getur víkkað sjóndeildarhring manna og nálgast frummynd manneskjunnar sem Guðs börn.

Þetta er kraftmikið frelsi og togar okkur í sífellu til nýrrar þróunar og framtíðar. Trúin á Krist er vissulega tengd sögu mannkyns en hún á ekki að vera bundin við fortíð heldur miklu fremur framtíð, sem sagt von og trú á komu Guðs ríki. ,,Ég fæðist á ný á hverjum morgni ” er tilfinning sem japanskt, kristið fólk finnur til.

Þarf þjóðkirkjufólk ekki að rifja upp þessa tilfinningu og halda aðeins meira á lofti en hún gerir nú?   Þjóðkirkjan á ekki eingöngu að hugsa um að verja og vernda sögulega menningu Íslands og gildi. Hún á líka að horfa til framtíðar, og að taka þar tillit til allra, líka þeirra sem ekki voru áður inn í myndinni í íslensku samfélagi og kirkjunni.

(Prestur innflytjenda, 16. janúar 2005 Mbl.)

css.php