Hættan er sú að stuðla að fordómum

Í Fréttablaðinu 5. apríl sl. birtist umfjöllun um útlendinga sem framvísa fölsuðum gögnum frá heimalandi sínu hér á Íslandi og nauðsyn fyrir breytingum á lögum og kerfi til þess að vernda almennakerfið frá slíkum svikum.

Ég hef engar mótbárur gegn því að berjast gegn svikum eða misnotkun kerfis, hvort sem útlendingar fremja eða Íslendingar, en samt tel ég að það eigi að fylgjast með málflutningi þegar talað er um svik eða glæpi svo að hann skapi ekki fordóma í garð saklauss fólks.

Í umfjöllunni var sagt ,,dæmi eru um að útlendingar sem [….] hafi fengið ríkisborgararétt á grundvelli falsaðra gagna”, en ekkert var sagt um hvers konar falsaðir pappírar voru notaðir eða um fjölda slíkra tilfella. Raunar voru þar engin fleiri dæmi nefnd um svik, fyrir utan dæmi frá Noregi um falsaða skráningu barns í opinbert kerfi.

Að sögn Kristínar Völundardóttur forstjóra Útlendingarstofnunnar voru 3.500 dvalarleyfi afgreidd hjá ÚTL í fyrra en hún telur að í einu prósenti þeirra hafi verið framvísað fölsuðum skilríkjum, en það er engin leið til að staðfesta það. Sem sé er um að ræða grun um svik, en ekki svikin sjálf.

Forstjórinn segir: ,,Þetta er ekki stór hópur en hættan er sú að það geti verið hættulegir einstaklingar […] Við höfum verið svolítið auðtrúa í þessum málum en vandamálið hefur birst í meiri mæli á undanförnum árum”.

Slíkt orðalag getur sett alla útlendinga undir grun um svik í augum Íslendinga, þar sem ÚTL lýsir því yfir að einstaklingar sem geti verið ,,hættulegir” búa í samfélaginu og fólk veit ekki hvers kyns skilríki hafa verið efasemdir um hjá ÚTL.

Annarsvegar skortir umfjöllunina áþreifanleg dæmi um svik eða nægilega útskýringu og hinsvegar sýnist mér að ummæli forstjóra ÚTL gangi of langt eða séu misvísandi.

Ég ætla mér hvorki að styðja svik né glæpi sem útlendingar fremja. Ef grunur er um að slíkt sé til staðar þarf að finna leið til að láta sannleikann koma í ljós. En kjarni málsins eru svik og glæpir en ekki vera útlendinga á Íslandi og því þurfum við að forðast að stuðla að fordómum í garð útlendinga hérlendis.

Ég vona að öndvegisfólk í opinberum stofnunum og fjölmiðlafólk hugsi sig vel um áhrif orða og málflutnings á samfélagið.

(Prestur innflytjenda, 12. apr. 2013 Toshiki.blogg.is )

 

css.php