Gjöf, framlag og gleði

Jólin eru að koma aftur. Persónulega verða þetta 21. jólin sem ég tek á móti hér á Íslandi. Ég hef tekið eftir því að nokkur breyting hefur átt sér stað um hvernig ég nýti daga aðventunnar á þessum tveimur áratugum.

Fyrstu árin mín hérlendis var ég giftur og börnin mín tvö voru lítil. Ég átti enga ættingja hér en samt voru litlir frændur og litlar frænkur allt í kringum mig og þannig voru aðventan og jólin mikið tengd við „gjafir”.

Mér fannst sérlega gaman þá þrettán daga þegar íslensku jólasveinarnir heimsóttu börnin mín. Satt að segja bað ég þá aldrei um að færa börnunum mínum kartöflur, heldur um að koma með eitthvað skemmtilegt. Ég held að það hljóti að hafa verið flókið að finna góðar og ódýrar gjafir í skóinn þrettán daga í röð. Aðventan var á vissu tímabili áskorun fyrir mann að brýna sköpunargáfu sína.

Núna eru börnin mín orðin stór og jólasveinarnir hættu heimsóknum til þeirra án þess að ráðfæra sig við mig. Ég þarf ekki að undirbúa jólagjafir fyrir fleiri en fjóra eða fimm. Samtímis fæ ég bara þrjá eða fjóra pakka fyrir sjálfan mig. Það skiptir litlu máli en ég sakna þess að gefa ekki fleiri jólagjafir.

Það gleður mig óneitanlega meira að gefa gjöf en að þiggja hana. Ég er að velta fyrir mér hvers vegna mér finnst það, kannski má ég segja að mér líði eins og ég nái í jákvætt samband við viðtakanda, jafnvel í skamma stund, með því að gefa honum gjöf.

Ég viðurkenni að slík tilfinning gæti verið ekkert annað en „sjálfsánægja mín” og því gæti það valdið óþægindum fyrir viðtakanda. Engu að síður get ég ekki heldur neitað þeirri gleði sem það „að gefa gjöf” færir mér, eða merkingu þess að „gefa” yfirleitt í mannlífi okkar.

Hátíð Guðs og hversdagslíf okkar

Við í kirkjunni segjum að messa sé gleðileg hátíð, þar sem við megum koma saman með hinar ýmsu gáfur okkar. Prestur flytur prédikun, organisti spilar friðsæla tónlist og kórinn syngur fallega. Það gæti einnig verið einkasöngur, leikur barna eða ljóðaupplestur, allt eftir tilefni. Allir mega koma með sitt framlag til að fagna hátíð Guðs.

Stundum gæti maður spurt sig: „Hvað um mig? Hef ég hef ekkert fram að færa? „Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn og guðsþekking fremur en brennifórn” (Hós. 6:6). Gjafir eða framlög okkar sem skipta Guð máli eru kærleikur okkar og trú, en alls ekki „sérhæfni” okkar í einhverri grein. Því þarf ekki að hafa áhyggjur af slíku.

Og þetta varðar ekki eingöngu messuna. Það má segja að hver og einn einasti dagur lífs okkar sé dýrmætur og hátíðardagur. Að gefa getur veitt meiri gleði en við erum meðvituð um. Hve auðvelt er, eftir allt, að gleyma þeirri gleði? Við gætum grátið af því að við höfum ekki nægileg tækifæri til að gefa, við eigum ekki marga æskuvini til að senda gjöf eða við erum ekki með neitt sérstakt til að leggja fram til Guðs.

Ef til vill miskiljum við það að „að gefa gjöf” eða „að veita framlag” eigi að vera mælanlegt. En það sem skiptir máli eru viðhorf þess sem gefur. Gefum við af því að það varðar lífsgildi okkar og birtist daglega í gjafmildi okkar, eða gefum við af því að það er ætlast til þess af okkur?

„Sælla er að gefa en þiggja” (Pos. 20:35) eru orð Jesú. Það er gaman að gefa og þiggja gjafir í kringum jólin. En til þess að njóta hinna sönnu verðgilda gjafmildi, bæði okkar vegna og annarra, eigum við ekki fyrst og fremst að minnast endalausrar náðar sem við þiggjum frá Jesú Kristi, og það sem við getum gefið öðrum á uppsprettu sína í henni?


(Prestur innflytjenda, 5. desember 2012 Mbl.)


css.php