Friður sé með oss

Ég hef verið að velta fyrir mér merkingu friðar þessa dagana. Ef til vill er það tímabært að hugsa um frið á aðventu. Hvað er friður? Einfalt svar er að sjálfsögðu það að friður er staða þar sem ekkert stríð ríkir. Þegar við fréttum um aðstæður í Sýrlandi eða Egyptalandi þökkum við líklega öll fyrir að Ísland er ekki þátttakandi í stríði við aðra þjóð eða að Íslendingar eru ekki klofnir vegna borgarastríðs.

Samt verðum við að segja að þessi skilgreining á friði, að friður sé staða þar sem ekkert stríð sé í gangi, sé frekar óvirk skilgreining. Er sérhvert samfélag án stríðs sannarlega friðsælt samfélag?

Ef fólk sem er í valdastöðu kúgar ákveðinn hóp manna í samfélaginu með því að svipta hann mannréttindum, ef það er fólk sem eru fórnarlömb skipulagðs eineltis eða mismunun, eða ef margir unglingar þjást vegna fíkniefnaneyslu, á slíkt samfélag skilið að kallast ,,friðsælt samfélag” þó að jafnvel  ofbeldi vegna stríðs sé ekki til staðar? Svarið mun vera ,,Nei”. Ekki bara ,,nei”, heldur geta slíkar aðstæður valdið óeirðum og ólátum einhvern tíma í framtíðinni.

Friður í virkri merkingu

Ef við skilgreinum frið á virkan hátt, mun hún vera eins og: friður er staða þar sem allir í viðkomandi samfélagi njóta allra réttinda sinna, taki þátt í samfélaginu á sinn hátt og að allir geti tekið þátt í umræðinni innan ákveðins lýðræðislegs ramma. Sem sé er þá er það nauðsynlegt að réttlæti í samfélaginu stofnist í ríkum mæli, auk þess að stríð sé ekki til staðar.

Slík lýsing um friðsælt samfélag er, eins og auðsætt ætti að vera, næstum því að lýsa hugmyndarfræðilega fullkomnu samfélagi, og vissulega er erfitt að láta þann draum rætast. Menn þurfa að vinna í málinu endalaust til að ná friði. Friður eða ást/kærleikur eru hversdagsorð fyrir okkur, en þau hafa þunga merkingu í sér.

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, hafði orð um frið og réttlæti í þessari merkingu eins og ég hef lýst hér, í ávarpi sínu við setningu kirkjuþings í nóvember sl. Hún sagðist hafa orðið fyrir áhrifum af guðfræði í Sri Lanka sem hún kynntist á heimsþingi Alkirkjuráðsins sem var haldið í Suður-Kóreu viku fyrir kirkjuþingið.

,,Öll þráum við frið og gerum okkur grein fyrir því að friður, jafnvægi, næst ekki nema réttlæti ríki. Við búum ekki við ófrið af því tagi er margir sögðu frá á heimsþinginu í Busan. … Samt er þörf fyrirbæn til Guðs lífsins um réttlæti og frið.

Það er ófriður í landi okkar. … Ófriður í þeirri merkingu að margir upplifa óréttlæti, þvinganir, afskiptaleysi, ósjálfstæði, ójafnrétti, kvíða, reiði”.

,,Sambýlis”guðfræði

Í Sri Lanka búa mörg þjóðarbrot saman og einnig eru í landinu mörg trúarbrögð eins og búddismi, hindúatrú, islam og kristni. En vegna skorts á réttlæti í samfélaginu hefur þjóðin lent í borgarastríði í fjórum sinnum frá 1983 til 2009. Í fjórða stríðinu voru fleiri en tuttugu þúsund borgarar drepnir. Aðstæðurnar eru ennþá óstöðugar og uppbygging réttlætis í samfélaginu virðist vera langt frá því að vera fullnægjandi.

Í slíkum aðstæðum hafa margir verið að vinna að því að byggja upp jákvæð samskipti meðal þjóðarbrotanna og trúarbragðanna í Sri Lanka. Sr. Dr. Rex Joseph (d. 2007) var einn af þeim og hann náði áberandi árangri í samstöðu meðal trúarhópa í Sri Lanka.

Dr. Joseph líkti ,,sambúð” mismunandi þjóðarbrota og trúarbragða við tré eins og Banyan eða Palmya Palm, en þau eru algengt tré í Sri Lanka. Þau eru ,,sambýlis”(symbiosis)tré og vaxa saman með því að láta greinar sína strjúka greinar annara trjáa. Þannig líta tvö tré út fyrir eins og eitt tré. Með því að vaxa á þennan hátt, geta trén verið sterkari fyrir vindum eða stormum. Samt eru þau sjálfstæð hvort frá öðru og þau stela ekki næringu frá öðru tré eða trufla á neinn hátt.

Dr. Joseph benti fólki í Sri Lanka á að sambýlistrén væru tákn fyrir það að hvernig þjóðin Sri Lanka ætti að vera.

Í ljósi íslensks raunveruleika

Ég held að það sé tvímælalaust einnig verkefni okkar á Íslandi að reyna að ná friði í virkri merkingu. Eins og Agnes biskup benti á, það er ófriður til staðar í þjóðfélagi okkar. Og til þess þurfum við einnig að ná réttlæti í samfélaginu. Án réttlætis er friður aðeins yfirborðslegt fyrirbæri.

Og gleymum ekki ,,sambýlistrjánum”. Hér búa líka mismunandi hagsmunaðilar eins og fjölbreytileg trú- og lífsskoðunarfélög. Réttlæti má ekki vera réttlæti, aðeins fyrir suma eða fyrir sjálfa sig, heldur verður það að vera réttlæti fyrir aðra líka. Munum það, að láta óréttlæti fyrir afskiptalaust veldur ógnar friði allra  einhvern tíma í framtíðinni. Sköpum frið og lifum saman í honum.
Friður sé með oss og gleðileg jól! 

(Prestur innflytjenda, 14. desember 2013 Mbl.)

 

css.php