Oftar en ekki setjum við fjölmenningu og málefni innflytjenda undir sama hatt í umræðunni og teljum þau af sama meiði en einmitt það er rangt. Þau eru líkt og tveir sjálfstæðir hringir sem skarast að nokkru leyti.
Til Íslands koma innflytjendur og flestir flytja með menningu frá sínum heimalöndum sem getur virst þeim sem fyrir búa framandi. Framandi menning á hins vegar einnig greiða leið til íslensku þjóðarinnar jafnvel þótt fólkið sem skapaði hana og hefur viðhaldið komi ekki hingað til lands.
Sem dæmi um það fyrrnefnda má nefna að nú hefur verið reist Búddahof á Íslandi þar sem margir innflytjendur, sem t.d. koma frá Taílandi, eru búddatrúar. Þar eru bein tengsl á milli innflytjenda og fjölmenningar. Sem dæmi um það síðarnefnda má nefna að margir Íslendingar njóta spánskrar matargerðar og flamengó-dansins án þess að Spánverjum hérlendis hafi fjölgað verulega. Þar er því um að ræða fjölmenningu sem ekki er bundin við innflytjendur heldur ferðalög landans. Það er mjög mikilvægt að við séum meðvituð um þennan mun sem getur verið á fjölmenningu. Mennig breytist líka og flyst til í heiminum.
Raunveruleg menning er síbreytileg
Margir Íslendingar virðast hafa áhyggjur af því að fjölmenning muni skaða hefðbundna, íslenska menningu. Þeir telja t.d. að fjölgun innflytjenda kunni t.d. að leiða til þess að enska verði almennara tungumál í samfélaginu sem muni hafa slæm áhrif á íslenska tungu. Þegar við skoðum málið út frá þeirri kenningu að málefni innflytjenda og fjölmenning séu tvö aðskilin mál verður myndin hins vegar önnur. Ljósvakamiðlar varpa að því mér sýnist, varlega áætlað, meira en helmingi efnis síns á ensku og það er varla vegna þess að helmingur íbúa Íslands sé frá enskumælandi löndum. Það sama á við tölvuleiki sem nú eru leikföng nær allra barna og unglinga nútímans, flestir eru þeir á ensku auk þess sem það er sú tunga sem flestir Íslendingar kjósa að nota þegar þeir vafra um Netheima. Hugsanleg áhrif enskunnar á íslenskuna er því ekki mest frá innflytjendum þegar þessi svið eru skoðuð heldur frá umbreytingum sem orðið hafa á hinu íslenska samfélagi. Samfélagið er iðulega í örri þróun og þegar litið er til lengri tíma má greina umbreytingu, sem t.d. má rekja til tækniframfara og nýjunga, aukinna samskipta við útlönd og nýrra hugmynda um jafnrétti kynjanna en ekki aðeins til innflytjenda eða hugmynda um fjölmenningu. Stöðnuð menning er aðeins til sem hugtak, raunveruleg menning er síbreytileg.
Gagnkvæm aðlögun
Í umræðunni um fjölmenningu á Íslandi, heyrist oft orðalagið ,,gagnkvæm aðlögun“ og sú merking er oftast lögð í þa að íslenskt samfélag og innflytjendur þurfi að laga sig hvort að öðru. ,,Gagnkvæm aðlögun“ er mjög mikilvægt orðasamband í umræðunni og getur verið lykilhugtak.
Margir sem hafa neikvæða afstöðu til innflytjenda segja gjarnan að þeir síðastnefndu lagi sig oft ekki að grundvallarhugmyndum vestrænna ríkja um lýðræði og mannréttindi og hafi ekki vilja til þess. Ég ætla ekki gera lítið úr þessum málflutningi því gagnkvæm aðlögun getur vitaskuld aðeins átt sér stað þegar báðir aðilar leggja sig fram.
Hins vegar vil ég benda gagnkvæma aðlögun í samfélaginu sem er af öðrum toga, þ.e.a.s. aðlögun á milli nýrra tíma og þeirra eldri, nútíðar, framtíðar og fortíðar. Þar verða einnig árekstrar en fáum dettur samt í hug að njörva niður skipulag samfélagins, eins og það er á einhverjum ákveðnum tíma, um alla framtíð.
Á síðastliðnum áratug hefur margt breyst í málum innflytjenda og hafa breytingarnar bæði verið jákvæðar og neikvæðar. En hvort heldur sem er hafa þær breytingar haft miklu minni áhrif á samfélagið í heild sinni en t.d. tækninýjungar á borð við farsímann og Netið. Málið er, hvort sem við erum meðvituð um það eða ekki, að þá þarf það samfélag sem er, og við nefnum oft hefðbundið, sífellt að aðlaga sig að nýrri menningu tímans. Þannig hefur gengið ágætlega að samræma þessar tækninýjungar íslenskri menningu þótt þær séu ekki íslenskar að uppruna og það sama getur einnig gilt um fjölmenningu.
Raunsæ framtíðarstefna
Við þurfum að horfa á málefni innflytjenda og fjölmenningar í því ljósi að samfélag og menning eru síbreytileg og fljóta með tímanum. Ég sé engan tilgang í því að spyrja hvort að gagnkvæm aðlögum á milli íslensks samfélags og fjölmenningar sé möguleg eða ekki. Gagnkvæm aðlögun er þegar til staðar á milli fortíðar okkar, nútíðar og framtíðar. Því er ekki hægt að hafna og það er mikilvægt að við séum meðvituð um það.
Oftast veldur það togstreitu og jafnvel kvöl að þurfa breyta okkur sjálfum, viðhorfum okkar og gildum og aðlagast nýjum aðstæðum í lífinu. Samt getum við ekki forðast áhrif fjölmenningar á samfélagið og við verðum að takast á við þau. Það er alls ekki óraunhæfur draumur að trúa á fjölmenningu og vilja stuðla að vexti hennar og viðgangi heldur er það þvert á móti raunsætt. Aðlögunin verður hins vegar auðveldari ef við skoðum fjölmenningu með opnum hug. Í henni getur nefnilega líka falist vaxtarbroddur.
(Prestur innflytjenda, 14. desember 2005 Mbl.)