Fjölbreytileiki í lífi okkar er alltaf að aukast. Án tillits til þess hvort maður viðurkenni íslensku þjóðina sem fjölmenningarlegt samfélag eða ekki, sjáum við fjölmenningarleg fyrirbæri nálægt okkur í daglegu lífi.
Fjölbreytileiki auðgar samfélagið okkar. Flest okkar njóta þess frelsis að geta valið um hvað við höfum í matinn hvern dag: íslenskan, kínverskan, tælenskan, mexíkóskan og svo framvegis. Okkur finnst gaman að lesa sögur frá heimsbyggðinni og þær bæta þekkingu okkar og hjálpa okkur að skilja betur heiminn. En fjölbreytileikanum fylgja líka erfiðleikar. Fjölmenning felst í því að mismunandi gildismat og hugarfar manna mætast. Á meðan einum þykir kvikmynd góð, þykir öðrum hún leiðinleg. Það er einkenni fjölmenningar að fólk má ,,bregðast við á mismunandi hátt” við sama atburðinum eða hlutanum.
Hér á landi er geðlægð landsþekkt fyrirbæri. Þá er ég ekki að tala um bókstaflegt þunglyndi, heldur tímabundna vanlíðan sem einkennist af þyngslum og vonleysi. Utanaðkomandi aðstæður, eins og t.d. atvinnuleysi, ástvinamissir eða hjónaskilnaður, getur haft í för með sér geðlægð.
Slíkar aðstæður eru viðukenndar örsakir sem þvinga menn til að líða illa. Á hinn bóginn er einnig hægt að finna atriði sem ekki eru sérstaklega tengd geðsveiflum en geta haft vandræði í för með sér fyrir innflytjendur. Hér er um að ræða menningarlegan mismun sem getur reynst vandmeðfarinn í fjölmenningarlegu samfélagi.
Skortur innflytjenda á kunnáttu í nýju tungumáli og vanþekking á samfélagsgerðinni hafa eðlilega ákveðinn menningarlegan mismun í för með sér. En önnur atriði eru einnig þýðingarmikil í þessu samhengi. Í mörgum menningarheimum til dæmis, eins og í Asíu eða í Afríku, ber fólk virðingu fyrir eldra fólki. Ég ólst upp í slíkum menningarheimi sjálfur. Í Japan er það viðtekið að eldra fólki er sýnd kurteisi og virðing (athugið að ég er ekki að leggja mat á hvort það sé jákvætt eða neikvætt).
Á Íslandi skiptir það ekki miklu máli hvort einhver maður sé eldri eða yngri en einhver annar. Fólk getur talað saman á jafnréttisgrundvelli án tillits til aldurs. Ég get sagt það af eigin reynslu að það tók mig talsverðan tíma að aðlagast þessu og finna málamiðlun. Nú þegar ég hef aðlagast er þetta ekki endilega neikvætt. En fyrstu árin leið mér illa og varð pirraður þegar yngri fólk talaði við mig eins og það væri jafningi minn.
Ég vil vekja athygli á því að ef menningarlegur mismunur er töluverður þá getur það valdið alvarlegri vanlíðan. Ef manneskja af erlendu bergi brotin skilur ekki hvað er að gerast í kringum sig vegna tungumálavankunnáttu þá getur hann túlkað afskiptaleysið sem af því hlýst sem ,,skort á virðingu” og tekur því sem persónulegri niðurlægingu. Þá mótar maðurinn slæma mynd af umhverfi sínu, mynd sem er ekki alls kostar rétt. Og hvort sem við köllum þetta fyrirbæri misskilning eða mistúlkun, er líf innflytjanda oftast ofið með slíkum smábilum milli raunveruleikans og þess hvernig viðkomandi túlkar raunveruleikann – sérstaklega á meðan innflytjandinn er ekki búinn að aðlagast samfélaginu nægilega.
Þess vegna sýnist mér nauðsynlegt að leysa þennan vef misskilnings og mistúlkunar, frá einum þræði til annars, til þess að geta nálgast geðheilbrigðisgæslu innflytjanda. Að sjálfsögðu á málið að vera unnið af bæði innflytjandanum sjálfum og af því fólki sem vill veita honum aðstoð.
Ef við förum enn lengra og skoðum menningarleg viðhorf innflytjanda gagnvart geðsjúkdómum flækjast málin enn frekar. Ástæðan er sú að fordómar gagnvart geðsjúkdómum eru enn ríkjandi í mörgum menningarsvæðum og fólk frá slíkum svæðum kýs hugsanlega frekar að líta fram hjá geðsjúkdómum, en að horfast í augu við þá.
Ef mér hefur tekist að koma þessu atriði til skila til ykkar lesendur góðir í þessari stuttu grein, þá er ég sáttur. Við þurfum að horfast í augu við að um leið og fjölbreytileikinn eykst í samfélaginu, þá stöndum við frammi fyrir fjölbreyttari orsökum vanlíðunar. Fjölmenning auðgar samfélagið en við þurfum að leggja okkur fram til að vel til takist – til að öllum líði vel. Við verðum öll sem eitt að vinna að uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags. Þeim mun meira sem við leggjum á okkur, þeim mun betur líður okkur.
(Prestur innflytjenda, 25. september 2007 Blaðið)