Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti stendur frá og með 15. mars til 23. páskadagsins. Hér á Íslandi verður sérstök uppákoma gegn rasisma haldin þann 18. mars í Reykjavík, Ísafirði og á Akureyri. Þarna munu margir unglingar frá ýmsum samtökum koma saman til þess að mótmæla kynþáttafordómum. Í tilefni þess langar mig aðeins að hugleiða hvernig við berjumst við fordóma í daglegu lífi okkar.
Finna má margs konar fordóma í samfélaginu. Kynþáttafordómar eru aðeins ein tegund fordóma en það er erfitt að draga upp skýra mynd af því hverjir eru helst haldnir fordómum og hverjir verða aðallega fyrir þeim. Stundum er manneskja sem er afar víðsýn á einu sviði fordómafull á öðru og þolandi ákveðinna fordóma ber sjálfur fordóma í brjósti gagnvart öðrum hópi en hann tilheyrir sjálfur. Þetta hef ég sjálfur séð nokkrum sinnum, t.d. er eitt dæmið um mann af afrískum uppruna sem hafði flúið kynþáttafordóma í heimalandi sínu en reyndist afar fordómafullur gagnvart samkynhneigðu fólki annað er fyrirmyndarprestur sem síðan er að mörgu leiti mjög fordómafullur gagnvart konum og kvenfrelsi.
Í raun má segja að ekkert okkar sé algerlega fordómalaust; við höfum öll fordóma sem við verðum að reyna að uppræta. Fordómar eru því alls ekki mál ákveðins hóps í samfélaginu, heldur eru þeir mál okkar allra, hvers og eins. Við verðum að líta í eigin barm, greina fordómana og losa okkur við þá og stuðla að því að fólkið í kringum okkur geri það líka.
Ég hef oft tækifæri til að tala og skrifa um kynþáttafordóma eða fordóma gagnvart útlendingum á Íslandi. Og ég hef fengið sérkennileg viðbrögð frá nokkrum Íslendingum. Þeir eru í afneitun og vilja ekki viðurkenna fordóma gagnvart útlendingum á Íslandi og segja til dæmis: ,,Það sem hann bendir á er ekki fordómar heldur bara hefðbundin sterk hegðun Íslendinga“, ,,Ísland er fordómaminnsta þjóð í heimi“ eða ,, Það eru meiri fordómar í Japan “.
Þegar við – bæði útlendingar og Íslendingar sem eru á móti kynþáttafordómum – tölum um fordóma á Íslandi, tölum við um raunverleika sem við mætum í daglegu lífi okkar í þeirri von að flestir Íslendingar vilja kynnast málinu og breyta því. Við erum ekki að skapa samkeppni um fordómaleysi meðal þjóðanna. Engu að síður hefur mér stundum fundist það vera talin ófyrirleitni gagnvart íslensku þjóðinni, í augum sumra Íslendinga, að benda á fordóma og mismunun á Íslandi. Slík afneitun kann ekki góðri lukku að stýra.
Ég held að fordómar séu eins og tölvuvírusar. Fordómavírus er nærri okkur í daglegu lífi og reynir í sífellu að hafa áhrif á hugsanir okkar. Því við þurfum að virkja vírusvörnina reglulega. Þetta er dagleg barátta gegn fordómum. Því miður brjótast kynþáttafordómar stundum út í ofbeldi, eins og árás á innflytjanda í miðbæ Reykjavíkur um daginn ber sorglegt vitni. Sem betur fer eru hatursglæpir sjaldgæfir á Íslandi en við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að atburðir af þessu tagi endurtaki sig.
Til þess er nauðsynlegt að losna við fordómavírusinn áður en honum tekst að taka yfir kerfið og skemma harða diskinn. Hatursglæpir eru aðeins framdir þar sem fordómavírusinn fær að leika lausum hala; þar sem samfélagið er lætur fordómafull viðhorf sér í léttu rúmi liggja skapast grundvöllur fyrir fordóma sem brjótast út í ofbeldi.
Mig langar til að benda á fordómavírusinn hefur náð einhverri fótfestu hjá fjölmiðlum. Umfjöllun sem gengur út á æsifréttir með fyrirsögnum eins og ,,Fæestir útlendingar gifta sig til að fá dvalarleyfi“ eða ,,útlendingar flytja inn glæpi“ veitir samfélaginu ranga sýn og lætur í veðri vaka að ekki sé um fordóma að ræða heldur staðreyndir. En fréttirnar af þessum toga snúast um grófar alhæfingar í stað ígrundaðra frétta sem vinna á af fagmennsku. Nokkrir stjórnmálamenn virðast einnig vilja notfæra sér umfjöllun af þessu tagi í atkvæðaveiðum og til að skapa yfirborðssamstöðu meðal Íslendinga. Þeim væri hollara að velta því fyrir sér hvort það séu raunverulegir hagsmunir Íslendinga – hagsmunir komandi kynslóða – að byggja upp samfélagssýn sem grundvallast á fordómum og misrétti.
Að lokum langar mig til að endurtaka aðalatriðið: við erum öll með fordóma!. Það er brýnt að við horfumst öll í augu við þá staðreynd og gerum allt sem við getum til að eyða fordómavírusnum hjá okkur sjálfum svo hann fái ekki tækifæri til að dreifa sér og vinni samfélaginu óbætanlegan skaða.
(Prestur innflytjenda, 15. mars 2008 Mbl.)