Er sanngjarnt að vera með fordóma?

Í þessari grein langar mig að fjalla um fordómafullt viðhorf og mismunun. Sumir gætu talið að fordómar gagnvart húðlit, tungumáli, þjóðerni eða framandi menningarbakrunni væru aðeins óljósar hugmyndir um fyrrnefnt, fáfræði eða í besta falli skilningsleysi. For-dómar geta verið allt þetta en þeir hafa birtingarmyndir og eru sýnilegir, ekki bara þeim sem fyrir þeim verða, heldur oft þeim sem verða vitni að þeim. Verstu birtingarmyndir fordóma eru viðhorf sem geta orðið til þess að fórnarlömb þeirra lenda í svæsnu einelti eða er mismunað á einn eða annan hátt.

Umræðan um fordóma gagnvart útlendingum hefur verið mikil á Íslandi síðan aukning varð á búsetu þeirra hér á landi. Stundum virðist manni sem innfæddir bíði eftir tækifæri til þess að tala illa um erlent fólk eða ráðast að því, t.d. eins og þegar erlent fólk á hlut að glæpum hér á landi eða veldur slysi. Þá má oft heyra, í fjölmiðlum eins og dagblöðum og á netinu, neikvæðar alhæfingar um erlent fólk þar sem því eru ekki vandaðar kveðjurnar. Þarna er eins og fólk sé að fá tilfinningalega útrás.

Það má nefna nokkrar goðsagnir sem hafa farið á kreik í gegnum tíðina þegar stór hópur útlendinga af sama þjóðerni tekur sér búsetu hér. Fyrir 8 -10 árum gekk sá orðrómur að „asískar konur væru allar keyptar og fluttar til Íslands,“ en þá hafði fjöldi kvenna af asískum uppruni aukist mikið hérlendis. Þegar hingað tók að koma fólk frá nýju EES löndunum til þess að vinna heyrðust háværar raddir eins og „Litháíska mafían tekur yfir Ísland” eftir að nokkrir Litháar reyndust viðriðnir fíkniefnasmygl. Pólverjar voru álitnir ekki virða umferðarreglur eftir að nokkrir höfðu lent í bílslysum og aðrir orðið uppvísir að ölvun við akstur. „Hælisleitendur eru allir lygarar,“ var viðhorf margra eftir húsleit lögreglunnar um miðjan september.

En það er líka til fólk sem veit betur, þekkir fordóma og mismunun og reynir að leiðrétta það missagnir í umræðunni. ,,Það eru bara nokkrir Litháar sem hafa haft afskipti af smyglmálum. Ekki allir Pólverjar keyra undir áhrifum áfengis o.s.frv.“ Ég trúi því að margir hlusti á þessar raddir líka og að dómgreind þess segi því að auðvitað sé það sé. Það sé ekki hægt að dæma heilan hóp út frá fáum einstökum. Engu að síður virðist sem það sé ávallt til slíkt fólk, og alhæfa um hópinn sem slíkan í stað þeirra einstaklinga sem frömdu ólöglegt athæfi eða sýndu gáleysislega hegðun. Þeir segja: „Jú, hátt hlutfall útlendinga fara ekki eftir siðvenjum og lögum Íslands og þeir sem bera enga virðingu fyrir lögunum á bara að senda úr landi!“

Það sem mig langar að fjalla um er að því er mér finnst kjarni málsins. Þegar glæpur er framinn á afbrotamaðurinn skilyrðislaust að svara til saka og taka út sína refsingu. Óheiðarleg framkoma eða vond hegðun er ekki glæpur í sjálfu sér en sjálfum langar mig dags daglega ekki að verða fyrir slíku. Ef hegðun einstaklings er ábótavant þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig og finna lausnir.

En hvort sem um glæp er að ræða sem fellur undir lög landsins eða siðferðislega ranga hegðun þá er kjarni málsins sá að það skiptir engu máli hvort að sá sem á hlut að máli sé dökkur á húð eða hvítur, hvort hann sé útlenskur eða íslenskur, tali prýðilega íslensku eða enga. Ekkert af þessu á að skipta máli þegar ,,dómur“ er kveðinn upp – aðeins þannig er hægt að taka á málinu með sanngjörnum hætti. Uppruni manneskjunnar, kyn, menntun eða félagsleg staða gæti haft áhrif á málið á óbeinan hátt en þau eru venjulega heldur ekki kjarni þess.

Þegar glæpur hefur verið framin eða siðferðislega röng hegðun höfð í frammi þá er oft auðveldasta ,,lausnin“ að skella skuldinni á t.d. þjóðerni eða félagslega stöðu og afleiðingin verður sú að alhæfa um félagslegan hóp og dæma hann. Slíkt er auðvert og manni gæti liðið vel með það, því þá er málið afgreitt og oft í sammæli við skoðanir meirihlutans. Sá sem gerir það er hins vegar að afsala sér dómgreind sinni og lýsa því yfir að hann hafi ekki áhuga á að vera sanngjarn við aðrar manneskjur í kringum sig. Það er það sama og að sætta sig við að vera fordómafullur.

Það að vera sanngjarn í viðhorfum til annars fólk er okkur ekki sjálfgefið. Við þurfum að þjálfa þann eftirsóknarverða eiginleika og viðhorf. Slík þjálfun gæti farið annars vegar fram í skólum eða á öðrum opinberum vettvangi, þar sem kennt er um almenn mannréttindi, en hins vegar þarf hver og einn líka að leggja á sig að fræða og þroska sjálfan sig. Það erum nefnilega við sjálf sem ákveðum að standa á móti fordómum og mismunun í samfélaginu og reynum að vera sanngjörn við aðra. Og ákveðin fyrirhöfn og umhugsun mun fylgja þeirri ákvörðun. Áður en við opnum munninn til þess að tjá okkur, áður en við sendum inn athugasemdir á bloggi, þá skulum við gefa okkur örlítinn tíma og íhuga hvort að við munum ekki örugglega verða sanngjörn. Slík fyrirhöfn er nauðsynleg á hverjum degi, oft á dag, til þess að byggja upp samfélag þar sem minna ber á fordómum og þar sem þeir birtast ekki eins harkalega í garð einstaklinga og/eða hópa.

(Prestur innflytjenda, 6. október 2008 Mbl.)

css.php