Hvað er sársauki í sálu manns? Skiptir það einhverju máli fyrir samfélag okkar að þekkja og geta samsamað sig sársaukanum í sálu náungans?
Það er ekki auðvelt að skilgreina það með orðum en ef til vill má segja að sársaukinn verði til í ferli þar sem manneskja reynir að komast yfir erfiða reynslu eins og sorg, slys, sjúkdóm, skilnað eða einelti svo einhver dæmi séu tekin. Þessi skilgreining eru auðvitað ófullkomin en varpar þó ljósi á hvað átt er við með sársauka.
Flest höfum við gengið í gegnum einhverja erfiða reynslu og berum þess merki í sálinni okkar. Í Nýja Testamentinu kennir Jesús okkur mikilvægi þess að þekkja og skilja sársauka meðbræðra okkar og jafnvel tengja við eigið líf. Það gerir hann meðal annars í gegnum dæmisögur eins og þegar mannsonur kemur (Mat. 25) og miskunnsama Samverjann (Lk.13). Páll Postuli segir einnig: ,,Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum“. (Róm. 12).
Sumir telja að predikanir Jesú og boðskapur hafi verið gagnrýni á gyðingdóminn en raunar beindist hann gegn viðhorfum leiðtoga gyðinga þeirra tíma frekar en gyðingdómnum sjálfum. Jesú fannst þá skorta skilning á sársaukanum sem bjó í sálum mannanna, sérstaklega þeirra sem lægra voru settir í samfélaginu. Þess vegna var hann oft harðorður í garð ríkjandi valdhafa.
Þegar við skoðum kristna trú þá er sársaukinn í kjarna hennar, sársaukinn sem birtist okkur í Jesú Kristi á krossinum og var (og er) tilkominn vegna okkar mannanna. En sá sársauki birtir okkur einnig kærleika hans. ,,Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga“ (Mk.14). Samfélag Krists er samfélag fólks sem skilur sársauka annarra og samsamar sig honum og Guð okkar þekkir sársauka manna. Það er alls ekki lítið atriði.
Sársauki sem þekkir mörk sín
En getum við í raunverulega nokkurn tímann skilið sársauka annarar manneskju? Þetta er erfið spurning og við verðum að íhuga svarið vel. Vitaskuld getum við ekki tekið á herðar okkar allar heimsins byrðar, það myndi sliga okkur. Við eigum yfirleitt auðveldara að samsama okkur sársauka þeirra sem standa okkur næst, eins og fjölskyldu og vina, en þeirra sem eru okkur fjær eins og í öðrum löndum eða heimsálfum. Við upplifum það ekki á sama hátt þegar fjölskylda okkar og vinir lenda í erfiðri lífsreynslu eins og náttúruhamförum og þegar manneskjur t.d. í Asíu, sem við þekkjum ekki neitt, lenda í því sama og það er eðlilegt.
Og jafnvel þegar við reynum að skilja sársauka þeirra sem við erum nátengd þá getur verið að við fáum svarið: ,,Þú skilur alls ekkert hvernig mér líður“. Skilningur á sársauka annarra er mjög mikilvægur hluti af starfi og þjónustu presta. Prestur á að hafa innilega vilja til þess að skilja fólk og hjálpa því að feta rétta vegu. Það er því fátt sem gengur jafnnærri hjarta prests og þessi orð, sem þeir heyra stundum falla í starfi sínu.
Það er því mikilvægt fyrir þá og alla aðra sem kunna að mæta slíkum orðum á lífsleiðinni að vera meðvitaðir um að skilningur okkar allra er takmörkunum háður, það er mikilvægt að við viðurkennum það og sættumst við það. Að reyna að skilja sársauka náungans en takast það ekki er allt annað en að líta framhjá sársauka hans.
Samfélag sem þekkir sársauka náungans
,,Íslenska þjóðfélagið er orðið kaldara.“ Sumir Íslendingar hafa haft orð á þessu við mig. Þeir segja að sársauki sinn sé tengdur samfélagslegum aðstæðum. Ég veit sjálfur ekki hvort þessi skoðun sé sönn eða ekki, því ég hef aðeins búið hér í 14 ár. Ég ólst upp í Tokýó og sýnist að mörgu leyti íslenska þjóðin búi enn yfir því dýrmæti að þekkja og geta samasamað sig sársauka náungans.
En fólkinu sem finnst Ísland vera orðið kaldara skynjar sig sem utan garðs og finnst anda köldu í sinn garð en ég vil ekki nefna sérstaklega hverjir það eru en það er mikilvægt að við veltum þeirri spurningu fyrir okkur.
Að þekkja sársauka náungans og geta samsamað sig honum er eitt af merkjum um þroska mannkyns. Það virðist því miður draga úr þeim þroska eftir því sem samfélag verður háþróaðra og ríkara. Íslenskt þjóðfélag stendur því á tímamótum.
(Ptrestur innflytjenda, 24. mars 2006 Mbl.)