Endurskoðun íhugunar í lífi okkar

Um þessar mundir á íslenska kirkjan þúsund ára afmæli, en það er um leið sá tími þegar kirkjunnar menn þurfa að hefja samræður við fulltrúa annarra trúarbragða hér á landi.

Margir virðist telja að með skoðanaskiptum fólks, sem aðhyllist ólík trúarbrögð, sé verið að blanda trúarbrögðunum saman. Hið rétta er að samræður hjálpa kirkjunni okkar til að brýna sig og að rifja aftur upp séreinkenni sín. Í dag langar mig til að reyna að endurskoða og prófa íhugunina í kristinni kirkju með því að lita á Zen-Búddhisma.

Íhugunin í Zen-Búddisma

Zen er ein stefnan innan Búddhisma. Upprunalega orðið fyrir Zen er “dhyna” á sanskrít og “dhyna” þýðir umhugsun eða einbeiting. Í stuttu máli þá er Zen leið íhugunar til að beina hug og hjarta að einum hlut (einu marki) og reyna að ná fullkomu stigi “sjálfstæmingar”. Hvað íhuga menn í Zen? Og af hverju vilja menn ná þessu stigi “sjálfstæmingar”? Zen-Búddhismi kennir að það búi í eðli allra manna að geta náð stigi Búddha sem er andlega uppljómuð tilvera. Ástæða þess að maðurinn getur ekki í upphafi komið auga á eðli sitt sem Búddha er sú að hugur hans og hjarta er þakið óróleika, girnd, ótta og græðgi, hann getur ekki opnað hin andlegu augu sín. Óróleikinn eða græðgin stafa frá honum sjálfum, frá hinum sjálfhverfa hluta hugar hans. Það er algjör nauðsyn að vinna bug á sjálfselskunni eða eigingirninni og til þess að geta það þarf hann að ganga í gegnum Zen- íhugun.

Í íhuguninni varpar hann fyrir róða þekkingu sinni, rökhugsun og þrá og reynir að ná stigi “sjálfstæmingar”. Hann reynir að hætta að sjá, heyra eða jafnvel að óska sér einhvers. Þá smám saman vaknar Búddha-eðli hans sem hefur legið í dvala djúpt í undirvitundinni og tekur að starfa í honum sjálfun og opna hin andlegu augu. Líkamleg augu mannsins geta aðeins séð yfirborð hlutanna í heiminum en með andlegum augum sínum getur hann greint sannleikann í heiminum. Þegar hin andlegu augu ljúkast upp mun alheimurinn opinberast í eðli sínu. Þá skilur hann lögmál alheimsins og samræmið í náttúrunni og hann verður sjálfur hluti af því. Gerum ráð fyrir að tunglið sé fullt og fallegt uppi á himninum. Einhver bendir okkur á þetta og segir; “Sjáðu hvað tunglið er fallegt!” Og við horfum á tunglið. Hvað sjáum við á þessu andartaki? Í stað þess að dást að tunglinu þá fylgjumst við með fingrinum sem bendir á tunglið, við hlustum á röddina sem segir; “Sjáðu hvað tunglið er fallegt!”, eða við hugsum; “Tunglið er nú ekki alveg fullt ennþá”, eða “mér finnst þetta ekkert sérstakt”. M.ö.o. jafnvel hinn einfaldasti hlutur eins og að horfa á tunglið er háð mörgum skilyrðum hjá okkur sjálfum. Vegna hinna ónauðsynlegu orða, hugmynda eða tilfinninga getum við ekki notið tunglsins eins og það í rauninni er. Zen-íhugun leitast við að losna undan viðjum þessara skilyrða sem hafa truflandi áhrif á birtingu tunglsins. M. ö.o. miðar Zen-íhugunin að þessu hugarástandi, þegar daglega tungumálið týnir virkni sinni og maður þarf að skerpa eðlisávísun sína. Zen-Búddhismi leggur ríka áherslu á það að þetta hugarástand sé óendanlega auðugt og að hið sanna eðli mannlegrar veru búi þar. Þessi skoðun á gagnkvæmri virkni milli hugar og tungumáls á vissulega einnig við um kristna trú. Þetta er það sem Zen-Búddhismi og kristin trú eiga sameiginlegt. En munurinn á þeim er þessi: Dýpst í huga mannsins, þar sem eðli mannlegrar veru býr, og þar sem algjört “sjálfstóm” býr, þar hefur Zen-búddhismi engan guð, en þarna setur kristin trú Guð á sama stað og hlustar á orð hans.

Að hverju beinist kristin íhugun?

Um hvað erum við hugsa? Mér finnst mjög mikilvægt að við hugsum okkur að við búum yfir einhverjum huldum hluta hugarins sem við gleymum að nota. Þetta er einhver hluti sem er ekki undir áhrifum frá rökhyggju hversdagsins, okkar félagslegu þörfum eða jarðnesku skynsemi.Við tölum um orð Guðs og hugsum og íhugum merkingu þess. En með hvaða hluta hugarins nemum við það eða íhugum?

Það var einu sinni mjög virtur prestur í landi mínu (Japan), sr. Enomoto, en hann er nú látinn. Þegar hann var að læra guðfræði þá varð hann á tímabili mjög óánægður með kirkjuna sína og leitaði til Zen-hofs og ætlaði jafnvel að skipta um trú. Hann þjónaði þar sem lærisveinn og reyndi jafnframt að læra allt um Búddha. En munkarnir voru alltaf að skipa honum að hreinsa hofið, taka til í garðinum, búa til mat og slíkt en þeir kenndu honum ekkert um Búddha. Dag nokkurn fór Enomoto til eins munksins og bað hann um að kenna sér eitthvað í fræðum Búddha. Munkurinn svaraði; “Nú, nú, langar þig til að fræðast um Búddha? Gott og vel, en farðu fyrst með ketilinn og fylltu hann af tei.” Ungi maðurinn gerði það. “Þakka þér fyrir, en náðu nú í vatnsglas fram í eldhús.” Og aftur gerði ungi maðurinn það sem fyrir hann var lagt. “Gjörðu svo vel, hér kemur vatnið.” “Gott ungi maður, sestu nú hérna hjá mér.” Ungi Enomoto varð nú ánægður að eiga það nú loksins í vændum að fá að heyra eitthvað um Búddha. En þá sagði munkurinn: “Núna skaltu hella tei úr katlinum í vatnsglasið.” “Ha? Hella tei í glasið, en glasið er jú fullt af vatni. Þætti þér ekki verra ef teið flæddi út yfir barmana á glasinu?” “Jæja, skilurðu nú loksins?” spurði munkurinn. “Nei, ég skil ekki neitt,” svaraði ungi maðurinn. Þá sagði munkurinn við hann; “Nú ert þú eins og þetta glas, ungi maður. Innra með þér er allt fullt af óþarfa vangaveltum og pælingum. Ef ég fer að bæta tali um Búddha inn í slíkar aðstæður þá er hætt við að hin dýrmætu sannindi um Búddha flæði út yfir barmana og út í afkima. Farðu fyrst og tæmdu sjálfan þig áður en þú tekur við orðum Búddha!”

Það er skoðun mín að orð Guðs eigi að nema með innstu og dýpstu rótum hjartans, á því sviði þar sem ríkir algjört tóm sjálfsins. Ef við reynum að nema orð Guðs án þess að taka til rúm í hjarta okkar til að meðtaka það eða njörvum það niður á svið venjulegrar rökhyggju og mannlegrar skynsemi þá mun orð Guðs “flæða yfir” og lenda úti í afkimum lífs okkar. Ég er hræddur um að þetta gerist oft hjá okkur.

Við hlustum á orð Guðs. Við lesum orð Guðs. Og við tökum við því á afar yfirborðslegan hátt með hugsunum okkar sem stjónast af mannlegri skynsemi. Þannig gerist það oft að við höldum bara eftir þeim orðum sem skilningur okkar og skynsemi getur tekið við. Þegar við mætum einhverjum orðum sem erfitt er að skilja eða sætta sig við segjum við bara: “Já, þarna er Jesús bara að sýna okkur hvað ætti að vera ákjósanlegast hugmyndafræðilega séð en hann ætlast nú varla til að við förum eftir því.” Við þurfum að komast að hinu djúpa hugskoti verundar okkar, þangað sem rökhugsun og skynsemi ná ekki til að trufla orð Guðs. Niðurstaða mín er því sú að íhugun okkar ætti að miða að því að endurlífga leynda afkima hjarta okkar og hugar svo að orð Guðs nái þangað. Við eigum að finna stað í okkur sjálfum þar sem “sjálfstóm” ríkir. Að sjálfsögðu getum við ekki farið eins að og Zen-munkarnir en með því að gefa okkur svolítinn tíma til íhugunar gæti okkur auðnast að eignast slíkan “stað” og varðveita hann. Þar mætum við orði Guðs. Þá hættir orð Guðs að vera bara siðaboðskapur og “móralismi” og fer að verða lifandi játning okkar. Þá býr orð Guðs alltaf með okkur, það kennir og leiðbeinir, það setur okkur skorður og dæmir og það huggar okkur og fyrirgefur.

“Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér” (Gal. 2:20). Þessi orð Páls varða leiðina að því marki sem íhugun okkar hefur.

(Prestur innflytjenda, 8. oktber 1996 Mbl.)

css.php