Samkynhneigð, vinaleið og aðskilnaður frá ríkinu eru meðal mála sem hafa verið mikið í samfélagsumræðunni um þjóðkirkjuna undanfarna daga. Í henni hafa ýmis viðhorf til kirkjunnar birst. Mér sýnist raddir úr samfélaginu oftast harðar og fullar af gagnrýni í garð þjóðkirkjunnar. Mig langar til að skjóta inn, í tíma, nokkrum línum um framtíðarsýn þjóðkirkjunnar.
Áður en ég tjái skoðun mína, tel ég rétt að segja frá því hvernig ég tengist þjóðkirkjunni. Í fyrsta lagi er ég þjónandi prestur þjóðkirkjunnar, ég fæ laun fyrir störf mín þar og er því beinn hagsmunaaðili. Hins vegar fékk ég köllun mína og hlaut menntun sem prestur í kirkju í Japan og er þess vegna ég ekki svo sterklega bundinn við hugtakið „þjóðkirkja“. Hvort kirkja sé þjóðkirkja eða ekki, er fyrir mér tæknilegt mál, en hvorki trúmál né hjartans mál.
Það er stundum sagt að glöggt sé gests augað og fyrir mig var ,,þjóðkirkja“ ekki sjálfsögð eins og fyrir marga Íslendinga þegar ég kom hingað til lands fyrir 15 árum en síðar lærði ég um það stóra hlutverk sem hún lék í sögu Íslands. Mér skilst t.d. að þjóðkirkjan hafi verið ein þeirra stofnana sem stóðu vörð um íslenska tungu þegar þjóðin var undir stjórn Danmerkur. Þá voru engar útvarps- eða sjónvarpsútsendingar eins og í dag og messur voru mikilvægir miðlar sem héldu við og varðveittu íslenska tungu á meðal Íslendinga. Margir prestar færðu einnig sögu Íslands í letur fyrir almenning, ortu ljóð um landið og sáu um kennslu ungmenna. Þjóðkirkjan hafði einnig frumkvæði þegar þurfti að bregðast við náttúruhamförum eða halda stórviðburði eins og þjóðhátíðir. Þetta eru bara fáein dæmi sem sýna að þjóðkirkjan hefur að vissu leyti verið meira en bara trúfélag í hefðbundinni merkingu þess orðs.
Þegar þjóðin hlaut sjálfstæði árið 1944 þá hlaut það að vera eðlilegt framhald af sögunni að setja þar ákvæði um ,,þjóðkirkju“. Núna í dag starfar þjóðkirkja og þjónar samkvæmt þessu ákveðna stjórnsýslukerfi og ég tel til þess að umræðan um framhaldið og framtíðarsýnina verði markviss verðum við að viðurkenna þetta atriði.
Þegar ég fylgist með umræðum sem varðar þjóðkirkjuna þessa dagana, þykir mér leitt að í gagnrýninni er oftast blandað saman ábendingum um kerfisgalla og einstaklingsbundinni tilfinningalegri andúð. Mér finnst t.d. alveg rétt að benda á mál, eins og og í hvaða málefni eigi að verja skatttekjum, ef viðkomandi finnst þar ríkja einhvers konar óréttlæti. Það er sjálfsagt mál að taka málið upp, kanna og ræða. Hins vegar finnst mér ekki réttlætanlegt að ræða málin eins og starfsmenn kirkjunnar séu að svíkja fé af almenningi og því glæpamenn. Það gæti verið gott tækifæri fyrir suma til þess að fá útrás fyrir andúð sína gagnvart kirkjunni en það er alls ekki réttmætt. Slík viðhorf er ein af ástæðum þess að erfiðara er að halda upp málefnalegri umræðu fyrir alla.
En hvað um framtíðarsýn þjóðkirkjunnar? Ég held það sé alveg sjálfsagt að við endurskoðum gamla kerfið og gerum það að betra kerfi sem passar núverandi og verðandi aðstæðum samfélagsins. Þjóðkirkjukerfið er ekki undantekning frá því og það getur ekki gengið á sama hátt og áður aðeins vegna framlags síns í fortíðinni. Persónulega sýnist mér skýrt í hvaða átt þjóðkirkjan verður að fara í framtíðinni. Það stríðir að mörgu leyti gegn þróun mannréttindahugmynda að stjórnskráin skuli gefa einu ákveðnu trúfélagi sérstöðu sem ,,þjóðartrú“ (Ég er samt ekki sammála því áliti að aðskilnaður kirkjunnar frá ríkinu yki beint trúfrelsi hérlendis og ég bíð eftir næsta tækifæri til að tjá mig um það atriði).
Eins og ég sagði hér að ofan, þá tel ég að þjóðkirkjukerfið snúist ekki trúmál heldur hvort hún sé hluti af samfélagskerfi. Að mínu mati þarf það ekki að vera neikvætt þótt þjóðkirkjan fari út úr þessu samfélagskerfi eða afsali sér sérstöðu sinni í stjórnarskránni en að sjálfssögðu munu því fylgja ýmis vandkvæði. Mér finnst löngu tímabært að setja sérnefnd í stjórnvöldum til þess að fjalla um ,,aðskilnað kirkjunnar frá ríkinu“ á málefnalegan hátt og kanna kosti þess og galla.
Það er fordæmi fyrir því að þjóðkirkja hætti að vera þjóðkirkja, eins og t.d. sænska kirkjan sem steig það skref árið 2000. Af hverju eigum við ekki að skoða þetta dæmi málefnislega og safna upplýsingum og álitum? Síðan mun verða hægt að setja áþreifanlega tímaáætlun til þess að framkvæma aðskilnaðinn, ef það er vilji Íslendinga.
Að lokum langar mig til að ítreka að mál um þjóðkirkjukerfið er ekki trúmál, heldur er það mál um samfélagskerfi sem varðar hagsmuni allra. Og því er þetta alls ekki mál eins og hvort kirkjan sé góð eða vond, eða hvort kirkjan sigrar eða tapar. Ég óska innilega þess að málið komist í almennilega umræðubraut.
(Prestut innflytjenda, 30. september 2007 Mbl.)