Auðlind þjóðarinnar

Innflytjendamál á Íslandi eru oft rædd í samhengi við vinnuafl og að því leyti eru viðhorf Íslendinga til okkar innflytjenda yfirleitt jákvæð. Við erum mannauður á vinnumarkaðinum. En efnahagslíf er aðeins hluti mannlífsins eða samfélagsins. Efnahagur er vissulega einn mælikvarði til að meta auð þjóðar. En við megum ekki gleyma þeim auði sem felst í menningu, í mannréttindum eða í lífi hverrar einustu fjölskyldu. Eru innflytjendur metnir fyllilega sem mannauður í þessum sviðum líka, rétt eins og á efnahagssviðinu?

Helstu atriði sem eru vanmetin

Ég vil nefna þrjá flokka fólks af erlendum uppruna sem býr á Íslandi:

1. Makar Íslendinga

Varðandi maka Íslendinga, þarf að nefna þrjú atriði.

A) Sú staðreynd að Íslendingar stofna fjölskyldu með útlendingum, er í sjálfu sér auður í þjóðfélaginu, þó að auður af þessu tagi sé ekki metinn í efnahagslegum könnunum.

B) Starfsemi innan hverrar fjölskyldu eins og að elda mat eða passa börn sem margir makar Íslendinga annast daglega, birtist ekki heldur í efnahagslegum tölum.

C) Margir útlenskir makar fórna hæfileikum sínum vegna þess að þeir fá ekki viðurkenningu á menntun sinni sem verkfræðingur, tæknifræðingur, þroskaþjálfi o.fl. Þau dæmi eru talsvert mörg. Þetta er ekki aðeins sóun auðlindar í þjóðfélaginu, heldur líka móðgandi og sorglegar aðstæður fyrir innflytjendur. Áþreifanlegar og sanngjarnar kröfur um hæfi til starfa verða að vera lagðar fram og einnig greið leið til þess að uppfylla þær kröfur. Koma þarf á sérstöku móttökukefi á í menntakerfinu sem sér um aðlögum menntunar innflytjenda á Íslandi

2. Innflytjendabörn

Foreldrar barna geta verið bæði útlenskir eða annað hvort faðir eða móðir útlensk. Innflytjendabörn eru eðlilega börn sem hafa tengsl við tvo menningarheima. Hér á ég ekki aðeins við tungumál heldur líka menningarleg atriði, hugarfar, tilfinningu til föðurlands eða sjálfsmynd. Ég á tvö börn sjálfur og mér finnst glæsilegt ef þau, þegar þau verða fullorðin, geta talað tvö móðurmál og þekkja tvo menningarheima, Ísland og annað heimaland sitt.

Í Reykjavíkurborg einni eru rúm 950 börn á leik- og grunnskólastigi, sem hafa annað móðurmál en íslensku. Ríkisvaldið á að velta fyrir sér hagræðinu sem fylgir því að eiga svona unga Íslandinga, sem tala arabísku, rússnesku eða kínversku og þekkja hugarfar þessara menningarheima. Hversu mikið hagræði mun Ísland hljóta, í utanríkismálum, í viðskiptaþróun eða í menningarsamskiptum vegna þessara unglinga? Því miður viðurkenna stjórnvöld þetta ekki ennþá og telja t.d. að móðurmálskennsla innflytjendabarna sé bara einkamál fyrir innflytjendafjölskyldur. Ég vil hvetja stjórnvöld að sjá lengra inn í framtíð þjóðarinnar og fjárfesta í menntun innflytjendabarna.

3. Ættleidd börn frá útlöndum

Samkvæmt Morgunblaði 25. janúar s.l. voru 450 börn ættleidd til fjölskyldna á Íslandi síðan 1970 frá 25 löndum. Í árið 2003 urðu 30 börn af erlendum uppruna meðlimir íslenskra fjölskyldna. Hverjir neita því að þau auðgi Íslendinga og þjóðfélagið?

Þátttaka innflytjenda er mikilvæg

Að lokum langar mig til að huga að þátttöku innflytjenda í samfélagslífi og stjórnmálalífi.

Mér finnst þátttaka innflytjenda á viðkomandi sviði ennþá yfirleitt vera lítil og léleg. Fólk heyrir sjaldan skoðun og umræður innflytjenda í fjölmiðlunum, í ýmsum samkomum eða í stjórnsýslukerfinu. Ef við heyrum ekki skoðun tiltekins hóps opinberlega í lýðræðisþjóð, þá má segja að sá hópur taki ekki virkan þátt í samfélags- og stjórnmálalífi.

Hverjar eru ástæður þess og hverjir bera ábyrgð á því? Auðvitað er þetta mál beggja aðila, íslensku þjóðarinnar og innflytjenda. Kannski eru stærsta hindrunin fyrir þátttöku innflytjenda í þjóðfélaginu það sem oftast er nefnt, tungmálkunnátta og skortur á skilningi á íslensku samfélagi. Þetta er á sameiginlegri ábyrgð þjóðfélagsins og innflytjendra sjálfra. Þjóðfélagið á að leita eftir skoðun innflytjenda og innflytjendur eiga að viðuekenna ábyrgð sína almennt í samfélaginu.

Nú kann að vera að sumir innflytjendur séu ekki vanir því að taka virkan þátt í lýðræðiskerfi í heimalandi sínu. Aðrir hafa einfaldlega ekki áhuga á pólitískum málum. Við getum verið ólík að mörgu leyti í mannlífinu. Samt er það svo að svo framarlega sem við ætlum að búa á Íslandi, verðum við innflytjendur að taka þátt í þjóðmálum, rétt eins og í efnahagslífi. Ef við tökum ekki þátt í stefnumótandi ferli þjóðlífsins, munu innflytjendur verða önnur og lægri stétt í þjóðfélaginu. Það er alls ekki gott, því að flest vandamál kringum í innflytjendamál eiga rætur í þessari stéttarskiptingu. Kjarni innflytjendamála á næstu 10 árum á Íslandi mun liggja einmitt í því hvernig innflytjendum tekst að taka virkan þátt í samfélagslegum og pólitískum málum þjóðarinnar. Ég óska þess innilega , að bæði Íslandingar og innflytjendur fylgjist með þessu atriði í náinni framtíð, svo að innflytjendur haldi áfram að vera auðlind þjóðarinnar, en verði ekki uppspretta vandamála.

(Prestur innflytjenda, 31. mars 2004 Mbl.)

css.php