Allir eru jafnir fyrir lögum?

Frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum verður lagt fyrir á Alþingi á næstunni. Þessi breyting lítur afar sakleysilega út við fyrstu sýn, en felur þó í sér alvarleg brot á stjórnskrá Íslands og mismunun gagnvart erlendum ríkisborgurum í landinu.

Ég mótmæli frumvarpinu og hef bent viðkomandi aðilum á athugasemdir mínar. En ég tel einnig að mál sem varða lög Íslands séu mál sem allir íslenskir ríkisborgarar beri ábyrgð á. Því vil ég útskýra málið fyrir ykkur hér stuttulega.

Innihald frumvarpsins

Eins og við vitum annast vígslumenn eins og t.d. prestar eða sýslumenn hjónavígslu og könnunarverkefni hennar, samkvæmt núverandi lögum.
Rétt fyrir áramót voru lögð fram fyrstu drög nýs frumvarps um breytingu á hjúskaparlögum, þar sem fram kom að öll öflun könnunarvottorða yrði flutt til sýslumanna. En það var ekki samþykkt, aðallega vegna mótmæla Prestafélags Íslands.

Þá voru gerð ný drög að frumvarpinu og er þar ætlunin að aðskilja öflun könnunnarvottorða eftir því hvort um erlenda ríkisborgara er að ræða eða Íslendinga. Í frumvarpinu stendur;”sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra skulu þó ávallt annast könnun á hjónavígsluskilyrðum ef annað hjónaefni eða bæði eru erlendir ríkisborgarar”(2.gr.).

Það verður sem sagt engin breyting í lögum þegar Íslendingar giftast Íslendingum, aðeins ef erlendur ríkisborgari á hlut að máli. Þeir verða allir að fara til sýslumanna og fá könnunarvottorð, en Íslendingar geta fengið sömu vottorð t.d. hjá prestum. Auk þess á sýslumanni að vera falið vald til þess að meta hvaða skjöl hjónaefni þurfa að leggja fram og leggja mat á þau skjöl.

Hvað er málið?

1. Í stjórnarskrá Íslands stendur “allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti”(65. gr.). Þótt það séu ýmsar sérskyldur og takmörk í lögum varðandi erlenda ríkisborgara, þá verða þau að vera sem minnst, því að allir “skulu vera jafnir fyrir lögum”. Það er skiljanlegt að sett séu sérstök lög og takmarkanir fyrir útlendinga varðandi dvalarleyfi eða kosningarétt þeirra, þar sem þessi atriði eru tengd við fullveldi þjóðarinnar.

En hvað um hjúskaparrétt? Er skynsamlegt að setja sérstök lög um hjúskaparrétt vegna þjóðernis? Í stjórnarskránni stendur einnig “allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu”(71. gr.). Hjúskaparréttur tilheyrir þessari friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í eðli sínu er þetta ekki málefni sem ræða má út frá sjónarmiði þess hvort viðkomandi sé íslenskur ríkisborgari eða erlendur ríkisborgari.

2. Það er alveg óljóst hver er ástæða þessara breytinga. Hugsanlega er ástæðan sú, að það kemur fyrir að t.d. prestur getur ekki staðfest hvort pappír sem lagður er fyrir uppfylli lagakröfur eða ekki. Sérstaklega þegar hann er skrifaður á ókunnugu tungumáli fyrir könnunarmanninn. Ef svo er, snýst málið aðeins um það hvernig könnunarmaður staðfestir skjöl sem aflað hefur frá erlendu ríki. Í þeim tilfellum gæti verið skynsamlegt; a) að skylt sé að láta löggilda þýðingu fylgja með. b) ef það er ekki hægt að fá löggilda þýðingu hérlendis, þá skal málinu vísað til sýslumanns til að staðfesta viðkomandi skjöl.

Aðalatriðið hér eru þau skjöl sem umræðir, en ekki mannneskjan sem ætlar að gifta sig né þjóðerni hennar. Hér er stór munur á. Erlendur ríkiborgari, sem giftist á Íslandi og skilur við maka sinn og vill síðan giftast aftur hérlendis, getur lagt fyrir nákvæmlega sömu pappíra og Íslendingar, þar sem gögn hans eru þegar skráð í Hagstofu. Sama gildir um erlendan ríkisborgara sem er í skráðri sambúð. Engu að síður samkvæmt frumvarpinu, sem kveður á um öðruvisi umfjöllun eftir þjóðerni, en ekki eftir skjölum sem viðkomandi ber með sér, þarf hann samt að fara til sýslumanns til að fá könnunarvottorð. Aðeins vegna þess að hann er ekki Íslendingur. Í frumvarpinu er málið, sem varðar staðfestingu pappíra frá erlndum ríkjum, mistúlkað og byggir á skipulagðri mismunun eftir þjóðerni. Frumvarpið byggir á algjörri þversögn að þessu leyti.

3. Það mál sem ég tel stjórnvöld verða að ræða í alvöru, varðar fólk sem ekki getur fengið nauðsynlega pappíra frá heimalandi sínu. Ástæður geta verið margar t.d. stríð, pólítískar ástæður eða eitthvað sem viðkomandi getur ekki borið ábyrgð á.

Það eru engin ákvæði til í núverandi lögum um slík tilfelli. Þess vegna virðist umfjöllun um tilfelli fólks fara eftir því hver annast þau í ráðuneytinu eða hjá vígslumanni. Sumum er sagt að það sé engin möguleiki á að stofna til hjúskapar nema viðkomandi pappírar fáist og aðrir verða að bíða óákveðinn tíma þangað til ráðuneytið fær staðfestingu í gegnum alþjóðlegar stofnanir. Aðeins hjá mér, presti innflytjenda, hafa 5 slík tilfelli komið upp undanfarin 3 ár.

Hvað eru lög og hvað er lögleysa? Að láta svona lagalega ringulreið viðgangast er að mínu mati brot á stefnu stjórnarskrár Íslands og mannréttindum. Lagakerfi landsins verður að virka fyrir þennan hóp fólks eins og aðra. Það þýðir að sjálfsögðu að stefnumótun eigi að miðast að því að tryggja mannréttindi fólks og vernda, en hvorki að þrengja að réttindum fólks né svipta það réttindum sínum.

Lokaorð

Síðast en ekki síst vil ég ítreka það að þessi lagabreyting sem viðkomandi frumvarp leggur til, er ekki aðeins andstætt stjórnarskrá Íslands og mannréttindahugsjóninni heldur er það einnig hættulegt og til þess fallið að auka fordóma og mismunun gagnvart erlendum ríkisborgurum og fjölskyldum þeirra í landinu. Viðkomandi lagabreyting er móðgun við 1000 ára sögu lýðræðis á Íslandi og vanhelgar hugmyndina um jafnrétti mannkyns sem stendur á 1000 ára sögu kristinnar trúar Íslendinga.

Ég óska þess að frumvarpinu verði breytt eftir umræður á Alþingi og vænti þess að athugasemdir mínir fái góðan skilning og stuðning ykkar.

Guð blessi Ísland og fólk með góða samvisku.

(Prestur innflytjenda, 24. febrúar 2001 Mbl.)

css.php