Aðlögun að íslensku lífi

Er aðlögun að íslensku lífi erfitt verkefni fyrir innflytjendur?„Já”: svara ég, sem einn af innflytjendum hérlendis, þrátt fyrir þá staðreynd að ég er búinn að búa hér í 20 ár. Það fer að sjálfsögðu talsvert eftir manni sjálfum en ég held að það séu aðeins örfáir innflytjendur sem myndu segja að aðlögunin væri auðveld.

Ein af ástæðunum sem margir hafa bent á, fyrst og fremst, er tungumálið. Íslenskt tungumál er erfitt mál að læra og ná góðum tökum á. Ég er sammála því að tungumálið er eitt af því sem torveldar aðlögunina. En það eru einnig önnur atriði og mig langar að segja frá þeim en taka um leið fram að ég er ekki að ásaka Íslendinga. Aðlögun á að vera gagnkvæm: innflytjendur sem búa í íslensku samfélagi eiga að huga að því en íslenska samfélagið á líka að huga að innflytjendum. Ég vona að þetta sé efni til umhugsunar.

Þétt samskipti manna

Það sem er sérstakt á Íslandi er sú staðreynd að margir, þó ekki allir, þekkjast. Margir þekkjast síðan úr leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og síðan háskóla. Sumir fara út í nokkur ár og koma til baka aftur og starfa á höfuðborgarsvæðinu, eignast fjölskyldu og halda þannig áfram.

Venjulegur Íslendingur á því yfirleitt marga æskuvini og ættingja í kringum sig. Þetta er alls ekki sjálfsagt mál í öðrum hlutum heimsins. Í heimaborg minni, Tókýó, hitti ég t.d. aldrei bekkjarbróður minn á förnum vegi, aðeins ef ég hyggst gera það og plana.

Nú lýsi ég á frekar ýktan hátt því sem ég vil koma á framfæri. Samskipti fólks eru mikil og þétt, líkt og Íslendingar væru ein stór fjölskylda. Þetta þéttriðna net samskipta gerir innflytjendum erfitt fyrir og mörgum finnst erfitt t.d. að eignast íslenska vini. Oftast upplifir innflytjandi sig einangraðan, eins og í einangrun, á ákveðnu tímabili fyrst eftir að hann kemur hingað. Innflytjendur þarfnast vina en hins vegar þarfnast Íslendingar engra nýrra.

Það eru ekki fáir innflytjendur sem segja:„Ég býð Íslendingum í kaffisopa heim til mín en mér er ekki endilega boðið til þeirra.” Þannig að það endar með að innflytjendur verða að vinum annarra innflytjenda.

Hið þéttriðna net samskipta getur einnig haft hagnýt áhrif. Ég ætla að vitna aftur í dæmi sem ég tók fyrir nokkrum árum. Þegar innflytjandi sótti um bankalán, þurfti hann að gera allt samkvæmt reglum. En Íslendingur sem ég þekkti fékk aðra afgreiðslu og lánið raunar mjög fljótlega.„Útibússtjóri þarna er æskuvinur minn”, sagði hann.

Sameiginleg reynsla og upplifun

Þéttriðið net samskipta fólks á Íslandi birtist einnig á annan hátt líka. Íslendingar hafa deilt sömu reynslu og upplýsingum saman lengi sem smáþjóð. Því er fátt sem þeir þurfa að útskýra sín milli, hvort sem það er sagan sjálf eða þau málefni sem eru í umræðunni hverju sinni, nú eða slúðrið. Þetta er alveg sérstakt. Í Japan eiga Tókýó-búar ekki svo mikið sameiginlegt með íbúum Osaka, t.d. hvað varðar sögu svæðanna og héraðsmenningu.

Innflytjendur hafa ekki upplifað þessa sameiginlegu reynslu Íslendinga og upplýsingamiðlun. Það er því stundum erfitt að spjalla við Íslendinga og fylgjast með því sem er að gerast.

Ofangreint er ýkt mynd og mikið um alhæfingar en ég nota þau til þess að leggja áherslu á ýmislegt sem hindrar innflytjendur í að komast í samskipti við Íslendinga. Ég er alls ekki að ásaka Íslendinga. Ég held að við, innflytjendur og Íslendingar, verðum sameiginlega að komast yfir þessar hindranir og byggja upp gagnkvæman skilning og aðlögun hvorir að öðrum. Mér þætti mjög vænt um að sem flestir Íslendingar íhuguðu þessi atriði og hugsuðu hvernig þeir gætu nálgast okkur innflytjendur og jafnframt hvernig þeir geti hjálpað okkur að blandast inn í íslenskt samfélag.

(Prestur innflythenda; 29. ágúst 2012 Mbl.)

css.php