ÉG ER prestur sem er í þjónustu við innflytjendur hérlendis, og ég er sjálfur innflytjandi. Um daginn frétti ég að útvarpsstöð nokkur ætlaði að taka viðtal við íslenska konu sem tengist í starfi sínu vinnu með innflytjendum. Það kom upp sú hugmynd að innflytjandi skyldi taka þátt í þættinum. En svarið frá útvarpsstöðinni var á þá leið að “íslenskir áheyrendur þoli ekki að heyra útlending tala vitlausa íslensku”. Hvað finnst ykkur um þetta viðhorf?
Biblían bannar okkur skurðgoðadýrkun. Í Jeremíu stendur: “Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki…” (10:5) Í gamla daga var skurðgoð bókstaflega dúkka sem búin var til úr tré eða steini.
Hér í ofangreindri Jeremíu er það fuglahræða. Síðar túlkaði kirkjan þessi orð þannig að allt sem sett er í staðinn fyrir lifandi Guð í lífi mannkyns sé skurðgoð. Þannig að ef við erum alveg upptekin af því að eignast peninga, frægð eða völd í samfélaginu, þá getum við nefnt það skurðgoðadýrkun.
Nútímaleg skilgreinig á skurðgoðadýrkun er að “það sem er raunverulega takmarkað, þykir ótakmarkað, það sem er aðeins einn hluti heildar er litið á sem heildina alla”.
Segjum við þetta með einfaldara orðalagi, þýðir það að skurðgoðadýrkun er, að nota gildismat sitt þar sem það á ekki við. T.d. ef einstaklingar eru metnir eða dæmdir eftir ákveðnum viðmiðum sem samfélagið hefur gefið sér fyrirfram, þá er það ákveðin skurðgoðadýrkun.
Þegar við gerum svona meðvitað eða ómeðvitað, byrjar fuglahræðan í melónugarðinum að tala og labba sjálf, og hún er mjög dugleg að fela sig í samfélaginu og við getum ekki lengur þekkt hana. Margar hlæjandi fuglahræður geta labbað um í kringum okkur.
Sem prestur innflytjenda hef ég mörg tækifæri til að ræða eða hlusta á umræður sem varða innflytjendamál. Þar eru flestir sammála um mikilvægi íslenskunnar fyrir innflytjendur til að lifa í íslensku samfélagi. Hvort maður geti bjargað sér á íslensku eða ekki virðist vera efst í forgangsröð fyrir okkur útlendinga. Þess vegna reyna stofnanir eins og t.d. Miðstöð nýbúa eða Námsflokkar Reykjavíkur alltaf að skapa fleiri tækifæri fyrir okkur útlendinga til að stunda íslenskunám. Þetta er hin “praktíska” hlið tungumálsins.
Hins vegar er íslenska kjarni íslenskrar menningar og fjársjóður Íslendinga. Hún þýðir meira en “praktísk” leið til samskipta.Við innflytjendur skulum bera virðingu fyrir því.
Engu að síður eru tungumál og sú menning sem þeim fylgir, hvaða tungumál og menning sem er, eitthvað sem aðeins hefur gildi á takmörkuðu svæði. Tungumálið er aðeins einn hluti menningarinnar. Tungumál ætti hins vegar aldrei að vera viðmið til þess að meta gildi lífsins eða mannkosti annarra.
Að þessu leyti sýnist mér að algengur misskilningur eigi sér stað í íslensku þjóðfélagi, og sumir dýrki tungumálið eins og Guð. Stolt og virðing fyrir fallegri íslensku getur ómeðvitað breyst í fyrirlitningu og fordóma gagnvart innflytjendum sem ekki hafa tileinkað sér góða íslensku.
Fyrir tveimur mánuðum lýsti Félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri því yfir að útlendingar sem vilja fá íslenskan ríkisborgararétt skuli standast grunnskólapróf í íslensku. Um svona hugmynd eða ofangreinda dæmið um útvarpsstöðina verð ég að segja að viðkomandi hafi misst áttir. Maður sem talar fallega íslensku hlýtur að eiga skilið hrós. En það virkar ekki öfugt. Þó að maður geti ekki talað góða íslensku, verða mannkostir hans alls ekki verri.
Þetta varðar ekki einungis innflytjendur, heldur varðar það einnig fólk sem er á einhvern hátt málhalt, með lærdómsörðugleika eða fólk sem ekki hefur haft tækifæri til að mennta sig.
Málið er ekki hvort þetta fólk geti komist inn í þjóðfélagið eða ekki. Þjóðfélagið byggist nú þegar á tilvist þeirra. Er ekki kominn tími til að íslenska þjóðfélagið hlusti á hvað innflytjendur hafa að segja, ekki aðeins hvernig þeir tala? Ef þjóðfélagið viðurkennir þetta ekki og reynir að útiloka ákveðið fólk frá samfélaginu vegna ofdýrkunar á íslensku, mun menning Íslendinga skaðast sjálf.
Íslenskan er mikilvæg og dýrmæt menningu landsins, en hún má ekki verða viðmið til að meta mannkosti annarra. Í tilefni af 1.000 ára kristnitökuhátíð á Íslandi óska ég þess að við kveðjum hlæjandi fuglahræður og losnum við dulda skurðgoðadýrkun úr þjóðfélaginu.
(Prestur innflytjenda, 8. febrúar 2000 Mbl.)