Kvennalandslið Japans í knattspyrnu, „Nadeshiko“ Japans, vann í fyrsta sinn heimsmeistaratitilinn á dögunum. („Nadeshiko“ er blóm sem er kallað „dianthus“ og oft notað sem tákn japanskrar konu á meðal Japana). Japan spilaði úrslitaleikinn á móti sterku bandarísku liði, sem í raun stjórnaði leiknum 80% af leiktímanum. En þrátt fyrir það unnu japönsku stelpurnar leikinn.
Sigurinn var óvæntur fyrir marga í heiminum. Margir fjölmiðlar fjölluðu um sigurinn sem verkefni: „Japanska liðið hafði sérstakt verkefni, að færa gleði og von til þjóðar sinnar sem þjáðst hefur vegna stóru jarðskjálftanna og flóðbylgnanna.“
Mér finnst þetta vera rétt ábending. Eftir úrslitaleikinn sagði Norio Sasaki, þjálfari liðsins, að liðið hefði annað erindi fyrir utan fótboltann sjálfan. Það væri að sýna heiminum þakklæti fyrir þann stuðning sem hann hefði sýnt japönsku þjóðinni eftir hamfarirnar og einnig að gefa Japönum von og kraft fyrir framtíðina.
Fyrir nokkrar af stelpunum virðist þetta markmið jafnvel hafa verið enn persónulegra. Eftir því sem ég best veit voru þrjár þeirra frá hamfarasvæðinu auk Sasaki, þjálfarans. Miðvörðurinn, Aya Sameshima, nr. 15, tilheyrði t.d. fótboltaliðinu „Tokyo Electricity“ og starfaði í því kjarnorkuveri sem olli geislalekanum eftir jarðskjálftann.
Í ljósi aðstæðna þurfti Aya að velta fyrir sér hvað væri rétt og rangt. Hún var í æfingabúðum sem voru langt í burtu frá hamfarasvæðinu en sendi skeyti til móður sinnar: „Má ég æfa mig í fótbolta á meðan margir eiga í erfiðleikum? Er ekki eitthvað að?“ Hún var lömuð af sektarkennd. En þeir sem hvöttu hana og sögðu að Aya mætti halda áfram að æfa voru fólk á hamfarasvæðinu sjálfu. „Hið besta sem þú getur gert fyrir okkur er að sýna okkur góðan fótboltaleik. Gefðu okkur gleði og von!“ Svo sannarlega svaraði Aya fólkinu með því að sýna sitt besta.
„Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum“ (Rom. 12:15) eru uppáhaldsorð mín í Biblíunni. Það þýðir ekki að við skulum aðlaga okkur að manneskju sem stendur frammi okkur núna. Það þýðir að við skulum lifa með náungum okkar alla tíð, hvort sem tíminn er góður eða slæmur.
Sorg manna og gleði, erfiðleikar fólks og fagnaðarefni er allt tengt hvað við annað á einhvern hátt. Sorg getur verið kraftur til að breyta neikvæðum raunveruleika í jákvæða átt og fögnuður verður næring fyrir nýja von. Þess vegna megum við ekki horfa fram hjá erfiðleikum annarra og við skulum ekki hika við að fagna fagnaðarefnum með öðrum.
Japanska þjóðin upplifði bæði sorg og gleði á stuttu tímabili. Við grétum og grétum, en núna er Japan full af gleði og fögnuði. Þetta tvennt er sjálfstætt hvort gagnvart öðru, en samt tengist það víst gegnum manneskjur sem hafa huggun til nágranna og kærleika.
Mig langar að þakka „Nadeshiko“-stelpunum fyrir þessi ómetanlegu skilaboð og einnig vil ég taka undir þakkir fyrir þá samstöðu sem fólk um allan heim sýndi Japan og kom svo berlega í ljós í heimsmeistarakeppninni.
(Prestur innflytjenda; 26.júlí 2011 Mbl.)